Spænska hagstofan hefur ákveðið að andlitsgrímur verða nú hluti af þeim vörum sem mynda grunn að vísitölu neysluverðs. Einnig voru áskriftir á fréttamiðla á netinu bættar inn í verðbólgumælingarnar en DVD- og geisladiskar verða ekki lengur hluti af vörukörfu vísitölunnar. Bloomberg greinir frá.
Grímuskylda gildir innandyra á flestum stöðum á Spáni. Í lok desember síðastliðnum ákvað Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, að setja á ný grímuskyldu utandyra vegna Ómíkron-afbrigðis veirunnar en spænska þingið á enn eftir að samþykkja breytinguna.
Líkt og annars staðar er Spánn nú að glíma við mikla verðbólgu en hún mældist 6,0% í janúar en hjaðnaði þó á milli mánaða þökk sé minni rafmagnskostnaðar.
Sjá einnig: Skipta út samlokum fyrir spritt
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem breytt neysluhegðun í kórónuveirufaraldrinum hefur leitt til breytinga á vörukörfu vísitölu neysluverðs en Breska hagstofan tók handspritt inn í sínar mælingar vorið 2021.