Eignarhaldsfélagið Hof, móðurfélag IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, hagnaðist um 5,2 milljarða króna á síðasta rekstrarári sem lauk 31. ágúst á síðasta ári og 5,8 milljarða hagnað á árinu þar áður.
Félagið, sem er í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona, hefur alls hagnast um 20 milljarða á síðustu fjórum rekstrarárum. Stærstur hluti veltunnar og hagnaðarins er tilkominn vegna rekstrar IKEA verslana í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Alls rekur Hof sjö IKEA verslanir og þjónustumiðstöðvar í löndunum fjórum auk vefverslana. Fjárfesting samstæðunnar í uppbyggingu verslananna undanfarinn áratug nemur yfir tuttugu milljörðum. Sigurður Gísli og Jón eru synir Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaupa, sem opnaði fyrstu IKEA verslunina hér á landi á níunda áratugnum. Uppbyggingin í Eystrasaltsríkjunum hófst hins vegar fyrir rúmum áratug. Þeir opnuðu fyrstu IKEA verslunina í Litháen árið 2013, í Lettlandi árið 2018 og fyrstu verslunina í fullri stærð í Eistlandi árið 2021.
Nánar er fjallað um uppgang IKEA verslana bræðranna í Eystrasaltsríkjunum í Viðskiptablaði vikunnar.