Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað fyrir tveimur vikum að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% og var það þriðja vaxtaákvörðun nefndarinnar í röð þar sem hún ákvað halda vöxtum óbreyttum.

Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var fyrir skemmstu, kemur fram að allir nefndarmenn nema einn studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar um að halda vöxtum óbreyttum.

Raunvextir ekki hærri síðan 2012

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, greiddi atkvæði gegn tillögunni en hann vildi fremur lækka vexti um 0,25 prósentur, úr 9,25% í 9,0%.

Gunnar taldi að nýjustu gögn hefðu sýnt að aðhald peningastefnunnar hefði verið nægjanlegt undanfarið enda hefði dregið jafnt og þétt úr umsvifum í þjóðarbúskapnum. Einnig fæli nýleg þróun efnahagsmála, verðbólguhorfa og raunvaxta í sér vísbendingar um að komið væri að því að lækka vexti.

„Benti hann á að raunvextir bankans hefðu ekki verið hærri síðan 2012 og allt benti til að þeir myndu hækka töluvert til viðbótar á næstu mánuðum. Rétt væri því að hefja lækkunarferlið en í litlum skrefum í ljósi þeirrar óvissu sem væri til staðar,“ segir í fundargerðinni.

Á síðasta ári greiddi Gunnar í tvígang atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra á fundum peningastefnunefndar en hann vildi ekki hækka stýrivexti jafn mikið og aðrir nefndarmenn á vaxtaákvörðunarfundum í maí og ágúst 2023.