Hagnaður Síldarvinnslunnar á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 4,9% frá sama tímabili í fyrrra og nam 19 milljónum dala, eða um 2,6 milljörðum króna. Síldarvinnslan birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Rekstrartekjur samstæðunnar á fjórðungnum drógust saman um 11% milli ára og námu 95 milljónum dala, eða um 13 milljörðum króna.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að reksturinn á síðasta fjórðungi hafi verið góður. Hins vegar liti loðnubrestur rekstrarniðurstöðuna á fyrstu níu mánuðum ársins. Auk þess hafi jarðhræringar í Grindavík sett strik í reikninginn.
Tekjur Síldarvinnslunnar á fyrstu níu mánuðum ársins drógust saman um 25,5%, eða úr tæplega 318 milljónum dala í 237 milljónir dala. Þá lækkaði EBITDA-hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins um tæplega 40% milli ára og nam 58 milljónum dala.
„Við teljum okkur engu að síður geta staðið við afkomuspánna sem gefin var út um að EBITDA ársins verði milli 74 til 84 milljónir [Bandaríkjadala],” segir Gunnþór.
Lítið vanti upp á mælinguna
Hann segir upphafsráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar um engar loðnuveiðar fyrir vertíðina 2025 valda vonbrigðum.
„[L]jóst að annað loðnulausa árið í röð yrði þungt högg, ekki síst á markaðshliðinni. Lítið vantar upp á mælinguna svo hægt væri að gefa út kvóta.
Mikilvægi loðnu fyrir fyrirtækin og samfélagið allt þarf ekki að fjölyrða um. Kom fram í erindi frá Aðalhagfræðingi Landsbankans nýverið að meðal loðnuvertíð geti aukið hagvöxt um 0,5 til 1%. Því mikilvægt að menn leggi sig fram við rannsóknir í vetur fyrir komandi vertíð.“
Eldgos hafi óveruleg áhrif á starfsemina
Gunnþór segir að eldgosið sem hófst í gær við Grindavík muni líklegast hafa óveruleg áhrif á starfsemi Síldarvinnslunnar sem á Vísi í Grindavík. Stefnt sé að því að vinnsla félagsins hefjist á morgun.
„Það er ljóst að óvissan og áhættan sem stafar af jarðhræringum á svæðinu er enn til staðar. Fáir starfsmenn búa í Grindavík en hafa keyrt til vinnu frá nágrannasveitarfélögum.“
Hann segir að framleiðslan í september hafa gengið vel bæði í saltfiskvinnslunni og frystihúsinu í Grindavík. Þær hafi verið nánast á sömu afköstum og fyrir jarðhræringar.