Gylfi Sigurðsson knattspyrnumaður hefur verið án samnings frá síðasta sumri þegar samningur hans við Everton rann út. Hann hefur verið í farbanni frá Bretlandi frá því hann var handtekinn í júlí árið 2021 vegna lögreglurannsóknar í Bretlandi. Lögreglan í Manchester tilkynnti í dag að Gylfi yrði ekki ákærður og því laus allra mála.
Í kjölfar handtökunnar sumarið 2021 var Gylfi tekin úr liðinu hjá Everton og æfði ekkert með liðinu síðasta ár hans á samningi hjá félaginu.
Gylfi var með um 850 milljónir í árslaun hjá Everton áður en málið kom upp, samkvæmt lista Viðskiptablaðsins í ritinu Áramót. Hann hefur verið lang launahæstur íslenskra íþróttamanna í um áratug.
Sé gert ráð fyrir að Gylfi hefði haldið sömu launum á yfirstandandi keppnistímabili, má ætla að fjárhagslegt tjón hans vegna tekjumissis hlaupi á milljarð króna. Það kann einnig að hafa áhrifa á næstu samninga Gylfa, ef hann snýr aftur í atvinnumennsku, að hann hefur ekki keppt undanfarin tvö tímabil.
Jafnframt miða samningar leikmanna oft við bónusa út frá ákvæðum um spilaða leiki, mörkum og annað, sem Gylfi hefur ekki getað uppfyllt frá því að lögreglurannsóknin hófst.
Samkvæmt fyrri launalistum Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar fékk Gylfi um 500-600 milljónir króna á ári hjá Tottenham og Swansea á árunum 2012 til 2017. Hann hækkaði umtalsvert í launum þegar hann gekk til liðs við Everton árið 2017 og var þá kominn með 850 milljónir í árslaun hjá félaginu.
Gylfi hóf atvinnumannaferlilinn snemma og var kominn til Reading árið 2008 þá kornungur að aldri. Hann var seldur til Hoffenheim í Þýskalandi 2010 fyrir 6,5 milljónir punda eða hæstu upphæð sem Reading hafði selt leikmann fyrir á þeim tíma.
Gylfi lék með þýska liðinu til 2012 þegar Tottenham keypti hann fyrir 8 milljónir punda. Hann lék með Lundúnarliðinu til ársins 2015 þegar hann gekk síðan til liðs við Swansea. Gylfi spilaði með velska liðinu í þrjú tímabil áður en Everton keypti hann fyrir 40 milljónir punda 2017. Þetta var hæsta upphæð sem Everton hafði greitt fyrir leikmann á þeim tíma.
Líkt og fyrr segir hefur Gylfi verið lang launahæstur íslenskra íþróttamanna í um áratug. Þar áður var Eiður Smári Guðjohnsen launahæstur í mörg ár eftir langan feril með Chelsea, Barcelona og Monaco.