Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum stóðu fyrirtæki og einstaklingar betur í skilum en nokkru sinni fyrr á faraldurstímum. Greiðsluhraði fyrirtækja og einstaklinga jókst mjög mikið milli áranna 2020 og 2021 og hefur aldrei verið betri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu kröfustýringar- og innheimtufyrirtækisins Motus um lykiltölur sveitarfélaga árið 2022.

Greiðsluhraði er mælikvarði sem Motus notar til að greina þróun innheimtu. Mælikvarðinn byggir á öllum stofnuðum kröfum hvers viðskiptavinar og er greiðsluhraði mældur út frá því hversu hratt kröfur greiðast, það er hversu hátt hlutfall stofnaðra krafna er greitt á tilteknum tímapunktum. Eftir því sem hlutfallið hækkar eykst greiðsluhraði og er því jákvætt að greiðsluhraði sé mikill

Þorsteinn Júlíus Árnason, vörustjóri innheimtu hjá Motus, segir þó ákveðið áhyggjuefni að á fyrstu sex mánuðum ársins 2022 hafi ógreiddum kröfum hjá viðskiptavinum Motus, öðrum en sveitarfélögum, fjölgað aðeins. Góðu fréttirnar séu þó þær að ógreiddum kröfum sveitarfélaga fari enn fækkandi.

„Það sem gæti skýrt þetta er að hærra hlutfall krafna sveitarfélaga er á einstaklinga en ekki fyrirtæki. Við höfum séð merki þess að aðeins sé farið að hægja á greiðsluhraða fyrirtækja á meðan greiðsluhraði einstaklinga hefur haldið sér. Milli áranna 2021 og 2022 stendur greiðsluhraði nokkurn veginn í stað hjá einstaklingum, en í maí og júní eru vísbendingar um að það dragi úr greiðsluhraða fyrirtækja. Hvort þetta sé örlítið hökt eða hvort það verði áframhaldandi lækkun á greiðsluhraða er erfitt að segja til um, en við fylgjumst vel með.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.