Seðlabanki Evrópu (ECB) hækkaði í dag stýrivexti um 0,75 prósentur, upp í 1,5% en um er að ræða aðra vaxtaákvörðunina í röð sem bankinn hækkar vexti um 75 punkta. Stýrivextir bankans hafa ekki verið hærri frá árinu 2009.

Vaxtahækkunin var í samræmi við væntingar markaðsaðila, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hækka vexti enn frekar þar sem verðbólga „er alltof mikil“. Christine Lagarde, seðlabankastjóri bankans, sagði að umfang og hraði næstu hækkana velti á verðbólguhorfum.