Seðlabanki Japans hækkaði stýrivexti í morgun um 25 punkta, úr 0,25% í 0,5%. Stýrivextir bankans hafa ekki verið hærri frá því í fjármálahruninu árið 2008.
Kazuo Ueda, seðlabankastjóri Japans, sagði að bankinn muni hækka vexti áfram svo lengi sem launa- og verðhækkanir séu nægilega miklar til að viðhalda verðbólgu í kringum 2% markmið bankans.
Bankinn sagði að undirliggjandi verðbólga sé að hækka og nálgast verðbólgumarkmiðið.
Vaxtahækkunin er í samræmi við markmið bankans um að ná stýrivöxtum í kringum 1%, sem er vaxtastig sem greiningaraðilar telja hvorki stuðla að þenslu að kólnun hagkerfisins, að því er segir í frétt Reuters.
Verðlagning á skuldabréfamörkuðum gefur til kynna að markaðsaðilar eigi von á einni annarri 25 punkta hækkun í ár. Greiningar starfsmanna seðlabankans hafa gefið til kynna að jafnvægisstýrivextir Japans séu á bilinu 1-2,5%.