Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 18% á síðasta ári og er um að ræða mestu hækkun á einu ári frá 2005. Hækkun síðastliðinna tíu ára nemur samtals 143% og hefur ávallt numið 5% árlega eða meira að frátöldu árinu 2019. Þrátt fyrir þessa umtalsverðu hækkun telur Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, að ótímabært sé að tala um bólu á markaði - enda eigi hækkunin sér ýmsar skýringar.
„Ég held það sé svolítið snemmt að fullyrða að bóla sé á fasteignamarkaði en vissulega er áhyggjuefni hve íbúðaverð hækkar hratt miðað við laun og annað verðlag," segir Bergþóra, en mat hagfræðinga Íslandsbanka er á þessu ári muni hægja á íbúðamarkaði þrátt fyrir að enn sé mikil eftirspurnarspenna til staðar.
Eftirspurnin er meðal annars drifin áfram af lágum vöxtum, en með vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands í kórónuveirufaraldrinum og tilheyrandi lækkun vaxta á íbúðalánum varð greiðslubyrði lánanna mun minni og þar af leiðandi hagstæðara að taka lán. Samhliða aukinni eftirspurn hefur þó einnig ríkt ákveðinn skortur á framboði á húsnæði sem hefur ýtt frekar undir verð.
Að sögn Bergþóru ræður byggingamarkaðurinn ekki við snögga aukningu í eftirspurn og því tekur tíma fyrir jafnvægi að nást. „Það tekur um tvö ár að anna þeirri eftirspurn sem kom svona skjótt, hún kom öllum að óvörum og enginn gerði ráð fyrir þessu," segir Bergþóra og bendir á að svipaðar aðstæður hafi ríkt árin 2016 til 2017, þar sem framboð réði ekki við aukna eftirspurn en að ákveðið jafnvægi hafi náðst árið 2018. Nú hafi hins vegar óvissa vegna heimsfaraldursins leitt til þess að íbúðafjárfesting dróst saman.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .