Öllum sjómönnum sem starfa fyrir Ein­hamar Sea­food í Grinda­vík var sagt upp störfum um síðustu mánaðamót, en þeir verða allir endur­ráðnir að sögn Stefáns Kristjáns­sonar, for­stjóra og eig­anda félagsins.

Í sam­tali við mbl.is segir hann að um sé að ræða skipu­lags­breytingar sem felist í því að tvær stöður um borð verði sam­einaðar í eina, þannig að á hverju skipi verði tveir yfir­menn og tveir há­setar.

Greint var frá því í há­degis­fréttum RÚV að tuttugu sjó­menn hefðu starfað hjá Ein­hamri en Stefán segir það ekki rétt.

Hann segir að breytingarnar séu nauð­syn­leg viðbrögð við versnandi rekstrar­skil­yrðum í sjávarút­vegi.

„Þetta er vegna hækkaðra veiði­gjalda og minnkandi afla­heimilda. Það er dökkt út­lit varðandi þorsk­stofninn á næstu árum. Haf­rannsókna­stofnun varar við því að afla­heimildir muni minnka á næstu tveimur til þremur árum. Við þurftum þess vegna að bregðast við og verjast.“

Að­spurður segir Stefán rekstur Ein­hamars áfram traustan og að út­gerðin muni hefja fullan rekstur á ný í kringum verslunar­manna­helgi.