Öllum sjómönnum sem starfa fyrir Einhamar Seafood í Grindavík var sagt upp störfum um síðustu mánaðamót, en þeir verða allir endurráðnir að sögn Stefáns Kristjánssonar, forstjóra og eiganda félagsins.
Í samtali við mbl.is segir hann að um sé að ræða skipulagsbreytingar sem felist í því að tvær stöður um borð verði sameinaðar í eina, þannig að á hverju skipi verði tveir yfirmenn og tveir hásetar.
Greint var frá því í hádegisfréttum RÚV að tuttugu sjómenn hefðu starfað hjá Einhamri en Stefán segir það ekki rétt.
Hann segir að breytingarnar séu nauðsynleg viðbrögð við versnandi rekstrarskilyrðum í sjávarútvegi.
„Þetta er vegna hækkaðra veiðigjalda og minnkandi aflaheimilda. Það er dökkt útlit varðandi þorskstofninn á næstu árum. Hafrannsóknastofnun varar við því að aflaheimildir muni minnka á næstu tveimur til þremur árum. Við þurftum þess vegna að bregðast við og verjast.“
Aðspurður segir Stefán rekstur Einhamars áfram traustan og að útgerðin muni hefja fullan rekstur á ný í kringum verslunarmannahelgi.