Landsréttur staðfesti í byrjun apríl sýknu Trausta Hafliðasonar, ritstjóra Viðskiptablaðsins og Mylluseturs ehf., útgefanda sama blaðs, í meiðyrðamáli sem lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson höfðaði. Jónas Fr. Jónsson, lögmaður Lúðvíks, sótti um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands, sem í dag hafnaði beiðninni.
Lúðvík höfðaði málið í sumarið 2020 vegna ummæla, sem birtust í skoðanapistlinum Óðni í Viðskiptablaðinu í apríl sama ár. Í pistlinum var fjallað um störf Lúðvíks sem óháðs kunnáttumanns fyrir Samkeppniseftirlitið vegna sáttar sem N1 og Festi gerðu við eftirlitið þegar félögin sameinuðust. Var fjallað um kostnað Festi vegna starfa Lúðvíks en á þeim tíma hafði hann fengið 33 milljónir greiddar frá Festi. Einnig var fjallað um tengsl hans við aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins.
Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur stefndi Lúðvík vegna þessara ummæla:
A: „Við blasir að efasemdirnar um Lúðvík voru ekki minni, sérstaklega vegna vináttunnar við aðstoðarforstjórann. Því jafnvel þó svo hann hafi þar hvergi komið nærri að nokkru leyti, þá leit það ekki þannig út og burtskýringin kom ekki fyrr en eftir að efasemdirnar höfðu komið fram á opinberum vettvangi. Sem sagt um seinan. Fyrir þá vini báða, Lúðvík og Ásgeir, Samkeppniseftirlitið og góða stjórnsýslu."
B: „Þessar fréttir af Samkeppniseftirlitinu og óheyrilegum kostnaði við eftirlit með samruna eru án efa tilefni í einn safaríkan Kveiks-þátt. Óðinn hlakkar raunar til að sjá Helga Seljan rannsaka þessa hliðstæðu. Hann getur varla látið svona tækifæri fram hjá sér fara. Þeim virðist svipa saman hjörtunum, í Namibíu og Borgartúni."
C: „Öll skynsemis- og réttlætisrök virðast hníga að því að Festi kæri kunnáttumanninn fyrir tilhæfulausa reikninga."
Fyrir Landsrétti var síðan eingöngu stefnt vegna ummæla C.
Ákvörðun Hæstaréttar
Í ákvörðun Hæstaréttar segir að í „dómi Landsréttar kom fram að þegar orðalag ummælanna og efni þeirra væri virt í heild yrði ekki talið að þau fælu í sér fyrirvaralausa staðhæfingu um refsivert athæfi en í svokallaðri skoðanagrein af því tagi sem málið varðaði yrði að láta fjölmiðlum nokkurt svigrúm til að ögra og færa í stílinn. Var því fallist á að ummælin fælu í sér gildisdóm þess sem þau ritaði en ekki staðhæfingu um staðreyndir. Jafnframt var fallist á að sá gildisdómur sem í ummælunum fælist ætti sér næga stoð í staðreyndum og að tenging þeirra við fyrri umfjöllun annarra fjölmiðla væri augljós. Þá vísaði rétturinn til þess að leyfisbeiðandi væri fyrrverandi alþingismaður en ummælin sem málið varðaði lytu þó ekki að störfum hans á vettvangi stjórnmála. Allt að einu yrði ekki framhjá því litið að hann væri þjóðþekktur einstaklingur."
Ennfremur segir í ákvörðun Hæstaréttar að ekki verði séð að dómur Landsréttar sé rangur og því var beiðni Lúðvíks og hans lögmanns hafnað.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður var verjandi Trausta og útgáfufélags Viðskiptablaðsins í málinu. Jón Magnússon var lögmaður Lúðvíks fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en Jónas Fr., sonur Jóns, fyrir Landsrétti.