Fjárfestahópurinn sem áformaði að leggja fram yfirtökutilboð í flugfélagið Play hefur fallið frá áformunum að því er kemur fram í tilkynningu Play til Kauphallarinnar.
Flugfélagið hefur þess í stað tryggt sér áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna.
„Áform og framtíðarsýn yfirtökuhópsins hafa fengið góðar viðtökur hluthafa félagsins, en eftir samtöl við hluthafa hefur komið fram að vilji margra er að Play hafi hlutabréf sín áfram skráð á aðalmarkað,“ segir í tilkynningu frá fjárfestahópnum sem Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, og Elías Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar flugfélagsins, leiddu.
„Í ljósi framangreinds hefur yfirtökuhópurinn tekið ákvörðun um að falla frá áformum um að gera valfrjálst yfirtökutilboð í hlutabréf félagsins, en mun áfram styðja við félagið í komandi vegferð, sem einhugur er um meðal hluthafa félagsins.“
Gefa út breytanleg skuldabréf fyrir 2,4 milljarða króna
Samhliða tilkynnir Play um að það hafi tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna, eða um 20 milljónir dala.
Á meðal þeirra sem taka þátt í þessari fjármögnun eru stærstu eigendur félagsins og nýir íslenskir fjárfestar, samkvæmt Play.
„Gjalddagi breytanlegu skuldabréfanna er 24 mánuðum eftir útgáfudag. Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti, sem að stærstum hluta leggjast við höfuðstól fram að gjalddaga, og verður skuldabréfaeigendum heimilt að umbreyta þeim í hlutabréf á genginu kr. 1,“ segir í tilkynningu Play.
Samhliða viðskiptunum munu eigendur skuldabréfanna eignast kauprétt á 30% hlut í dótturfélagi Play, Fly Play Europe.
„Við áttum mörg góð samtöl við hluthafa þar sem þeir lýstu yfir miklum vilja til að hafa félagið áfram skráð á aðalmarkaði Kauphallar. Þess vegna var þessi leið farin við útfærslu á fjármögnun félagsins. Félagið hefur þess í stað safnað áskriftarloforðum að breytanlegu skuldabréfi að upphæð 2.425 m.kr. Þessi niðurstaða er skýr stuðningsyfirlýsing við áætlanir félagsins og áframhaldandi uppbyggingu. Viðbrögðin við nýju viðskiptamódeli eru góð og það er ánægjulegt að sjá aukið vægi stofnanafjárfesta í þessari fjármögnunarlotu,“ segir Einar Örn.
„Við höfum nú þegar séð jákvæð áhrif breytts viðskiptalíkans á rekstur félagsins þar sem við einblínum á flugleiðir sem skila góðri afkomu og leigjum út þotur í arðbær verkefni til annarra flugrekenda. Við ætlum að byggja upp öflugt og gott flugfélag sem Íslendingar velja og höldum ótrauð áfram á þeirri braut.“