Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að falla frá ráðstöfun 600 milljón króna af fjárheimildum ársins 2025 og lagt til við fjármálaráðherra að horft verði til þess við gerð frumvarps til fjáraukalaga, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Jóhann Páll segir að með markvissri forgangsröðun verkefna hafi verið skapað svigrúm til að skila strax 600 milljónum króna án þess að það komi niður á kjarnastarfsemi ráðuneytisins og málefnasviða sem undir það heyra.
Um sé að ræða 250 milljónir krónur af fjárheimildum á málefnasviði 15 Orkumál og 350 milljónir króna af fjárheimildum á málefnasviði 17 Umhverfismál.
Ákvörðunin er sögð vera liður í hagræðingarátaki ríkisstjórnarinnar. Með henni sé stutt við markmið um að ekki skuli ráðist í nein ný útgjöld árið 2025 án þess að aflað sé aukinna tekna eða hagrætt á móti.
„Hagræðingarátak ríkisstjórnarinnar tekur til alls stjórnkerfisins. Fagstofnanir og starfsfólk umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hafa tekið virkan þátt í vinnunni og fram undan eru mikilvæg hagræðingar- og sameiningarverkefni sem munu skila sér í sparnaði, bættri stjórnsýslu og léttari reglu- og stjórnsýslubyrði á komandi árum,“ segir Jóhann Páll.
„Ég lagði þó líka áherslu á það þegar ég steig inn í ráðuneytið að útgjöld yrðu lækkuð strax á yfirstandandi ári til að senda skýr skilaboð og styðja við markmið ríkisstjórnarinnar um bætta afkomu ríkisins.“