Á morgun hefst sjö vikna námskeið á vegum Sahara Academy, skóla í stafrænni markaðssetningu, sem hefur kennt stafræna markaðssetningu frá því það var stofnað árið 2022.
Skólinn hefur hingað til útskrifað alls 100 nemendur en seinasta útskriftin átti sér stað fyrir áramót.
Við Sahara Academy læra nemendur að setja upp herferðir og mæla árangur í auglýsingakerfum hjá miðlum eins og Facebook, Instagram, Google og Youtube. Auk þess glíma nemar við raunveruleg verkefni fyrir alvöru viðskiptavini.
„Sahara Academy kennir dýrmæta þekkingu og færni sem er eftirsóknarverð á almennum vinnumarkaði, ekki síst hjá auglýsingastofum og markaðsdeildum fyrirtækja. Nemendur gangast undir próf frá Meta og Google sem veita alþjóðlega viðurkennda vottun í auglýsingakerfum miðlanna,“ segir Jón Gísli Ström, sem hefur yfirumsjón með Sahara Academy.
Skólinn er sjö vikna nám undir handleiðslu skólastjóra og sérfræðinga Sahara en í gegnum námið munu nemendur takast á við fjölbreytt próf á vegum skólans auk þess að gangast undir próf frá Meta og Google sem vottar þau sem sérfræðinga í faginu.
„Stafræn markaðssetning er mjög lifandi og þurfum við að vera stöðugt á tánum að tileinka okkur nýjustu strauma og stefnur. Þar af leiðandi er ekkert námskeið alveg eins þar sem við leggjum áherslu á að námskeið sé sem gagnlegast fyrir nemendur eftir útskrift,“ segir Jón.