Stærsti hluthafi breska lúxusvörumerkisins Mulberry hafa hafnað uppfærðu yfirtökutilboði frá Frasers Group, sem er m.a. móðurfélag Sports Direct íþróttaverslunarkeðjunnar.

Mike Ashley, fyrrverandi eigandi enska knattspyrnufélagsins Newcastle, er stærsti eigandi Frasers Group með um 62% hlut. Heildarverðmæti Mulberry nam samkvæmt tilboðinu 111 milljónum punda.

Challice Limited, sem á meirihluta í Mulberry, greindi frá því í yfirlýsingu að það hefði engan áhuga á að selja hlut sinn í félaginu til Frasers Group eða að gera nokkurs konar skuldbindandi samkomulag við félagið.

Frasers Group á þegar 37% hlut í Mulberry en uppfært tilboð félagsins í aðra hluti en þegar eru í eigu félagsins hljóðaði upp á 150 pens fyrir hvern hlut. Fyrra boð félagsins hljóðaði upp á 130 pens fyrir hvern hlut.