Yfir­skatta­nefnd hafnaði ný­verið kröfum Davíðs Helga­sonar, stofnanda og fyrr­verandi for­stjóra Unity, um endur­greiðslu fjár­magns­tekju­skatts í tengslum við hluta­fjár­lækkun í Foobar Iceland árið 2022.

Davíð hélt því fram að við á­kvörðun stofn­verðs hluta­bréfanna bæri að miða við gang­verð þeirra við upp­haf ó­tak­markaðrar skatt­skyldu er hann flutti til Ís­lands í lok árs 2021.

Málið er í raun það fyrsta sinnar tegundar þar sem látið er reyna á hvernig ís­lenska ríkið á­kvarðar stofn­verð hluta­fjár (eða annarra eigna) ein­stak­lings sem flytur til landsins og skatt­lagningu mögu­legra tekna af slíkum eignum eftir að til landsins er komið.

Úr­skurðurinn gefur til­efni til þess að ein­staklingar sem flytja til Ís­lands hugi sér­stak­lega að því hvernig mögu­legar tekjur þeirra, eða tap, af slíkum eignum eru reiknaðar eftir að bú­seta hér á landi er hafin.

Niður­staðan getur því sem slík haft á­hrif á á­kvarðanir ein­stak­linga um hvort eða hve­nær þeir flytja heim til Ís­lands eða ekki.

Í lögum um tekju­skatt segir að þegar hluta­fé er lækkað eru tekjurnar munur á stofn­verðinu annars vegar og út­greiðslunni hins vegar en í máli Davíðs var deilt um hvað stofn­verðið væri við flutning hans hingað heim.

Davíð greiddi hátt í 400 milljónir í stað­greiðslu við hluta­fjár­lækkunina en líkt og heimilt er í lögum um tekju­skatt er hægt að óska eftir því að ríkis­skatt­stjóri endur­skoði stað­greiðsluna sam­kvæmt fram­tali árið eftir. Málið var kært alla leið til yfirskattanefndar.

Á­skrif­endur geta lesið ítar­lega um­fjöllun um hluta­fjár­lækkunina og á­kvörðun skatta­yfir­valda hér.