Hagar, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, áætla að rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) á þriðja árfjórðungi fjárhagsárs þess, sem nær frá 1. september til 30. nóvember, hafi verið umfram áætlanir. Félagið sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Hagar gera ráð fyrir, samkvæmt drögum að uppgjörinu, að EBITDA-hagnaður á fjórðungnum verði á bilinu 3,2-3,3 milljarðar króna. Til samanburðar var EBITDA-hagnaður samstæðunnar á þriðja fjórðungi síðasta fjárhagsárs, um 2,6 milljarðar króna.
„Afkomu umfram áætlanir á þriðja ársfjórðungi má annars vegar rekja til aukinnar aðsóknar í verslanir Haga, og þá einkum í dagvöruhluta samstæðunnar þar sem bæði seldum stykkjum og heimsóknum viðskiptavina fjölgar. Hins vegar hefur áfram verið sterk eftirspurn í eldsneytishluta samstæðunnar,“ segir í tilkynningu Haga.
Stjórnendur Haga hafa fært EBITDA-afkomuspá ársins 2023/24 upp um 650 milljónir. Félagið gerir nú ráð fyrir að EBITDA-hagnaður á fjárhagsárinu verði á bilinu 12,9-13,4 milljarðar króna en fyrri spá félagsins gerði ráð fyrir að EBITDA yrði á bilinu 12,25-12,75 milljarðar.
Hagar munu birta uppgjör þriðja ársfjórðungs, þ.e. tímabilið 1. september til 30. nóvember 2023, þann 11. janúar næstkomandi.