Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, skilaði 2,4 milljarða króna hagnaði á öðrum fjórðungi rekstrarársins 2022, þ.e. frá júní til ágúst. Til samanburðar hagnaðist félagið um 1,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Í uppgjörstilkynningu rekur Finnur Oddsson, forstjóri Haga, hagnaðaraukninguna til bættrar afkomu Olís og áhrifa viðskipta við Klasa.
„Helstu skýringar á bættri afkomu á fjórðungnum eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi skilaði Olís töluvert betri afkomu en í fyrra, en þar hefur raungerst ávinningur hagræðingar í rekstri félagsins á síðustu misserum, áhrif fjölgunar erlendra ferðamanna og aukinna umsvifa hjá stórnotendum, einkum í útgerð og ferðaþjónustu,“ segir Finnur.
„Í öðru lagi, þá féll til á fjórðungnum hagnaður vegna sölu á eignum vegna kaupa Haga á 1/3 hlutafjár í Klasa ehf., en áhrif á EBITDA samstæðu eru jákvæð um 966 m.kr. Að lokum, þá hafa nýjar stefnuáherslur og almennar hagræðingaraðgerðir síðustu misseri skilað bata í rekstri þvert á samstæðuna.“
Fram kemur að 84 milljóna króna sölutap hafi verið af sölu á Mjöll-Frigg til Takk Hreinlætis sem tilkynnt var um í júlí.
Vörusala jókst um fjórðung milli ára
Vörusala Haga jókst um 24,4% á milli ára og nam 43,4 milljörðum króna á fjórðungnum. Finnur segir að tekjuaukninguna megi rekja að hluta til hækkandi aðfangaverðs frá heildsölum og framleiðendum sem leiði til hærra vöruverðs í verslunum Haga. Afkoma í dagvörusölu hafi verið svipuð á milli ára.
„Hækkanir og sveiflur í verði aðfanga til starfsemi Haga voru því áfram eitt helsta viðfangsefni stjórnenda félagsins, sem hafa lagt sérstaka áherslu á að tryggja vöruúrval en sporna um leið gegn hækkandi vöruverði og verðbólgu með hagkvæmni í innkaupum og rekstri.“
Framlegð Haga jókst um 13,5% á milli ára og nam 8,5 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 33,9% á milli ára, úr 3,3 milljörðum í 4,4 milljarða króna.