Hagar hf. og eigendur Eldum rétt ehf. hafa náð samkomulagi um kaup Haga á öllu hlutafé Eldum rétt. Þetta kemur fram í tilkynningu. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Eldum rétt var stofnað fyrir um 9 árum síðan. Fyrirtækið sérhæfir sig í gerð matarpakka sem viðskiptavinir geta pantað á netinu. Í hverri viku geta viðskiptavinir þannig valið á milli nýrra uppskrifta og hagað matseðli vikunnar þannig að hann henti allri fjölskyldunni. Matarpökkunum fylgja einfaldar leiðbeiningar sem gera öllum fært að elda gómsætar máltíðir úr hágæða hráefni.
Valur Hermannsson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi Eldum rétt, segir í tilkynningu að með nýjum eigendum verði hægt að ráðast í skemmtileg verkefni og hraða allri framþróun félagsins. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir í tilkynningu að vörur og þjónusta Eldum rétt falli vel að áherslum Haga um að einfalda matargerð, gera hana skemmtilegri og draga úr matarsóun.
Samkvæmt nýjasta aðgengilega ársreikningi Eldum rétt, sem nær yfir rekstrarárið 2020, átti framtakssjóðurinn Horn III, sem rekinn er af Landsbréfum, helmingshlut í félaginu. Stofnendurnir Valur Hermannsson og Kristófer Júlíus Leifsson áttu svo sitthvorn fjórðungshlut í félaginu.
Finnur Oddsson, forstjóri Haga:
„Stjórnendur og starfsfólk Eldum rétt hafa skapað sterkt vörumerki og sýn til framtíðar sem tónar vel við tíðarandann og aukna áherslu á sjálfbærni og umhverfi. Vinsældir fyrirtækisins byggja þó ekki síst á gæðum hráefnis og uppskrifta og einstaklega lipurri og áreiðanlegri þjónustu. Við erum stolt af því að geta bætt Eldum rétt í þjónustuframboð okkar hjá Högum og munum viðhalda og styrkja þær áherslur sem hafa gert þjónustu Eldum rétt eins eftirsótta og raun ber vitni."
Valur Hermannsson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi Eldum rétt:
„Hagar deila hugsjónum stofnenda Eldum rétt um að reka fyrirtækið í sömu mynd og áður þar sem lögð verður áhersla á gæði uppskrifta, hráefna og þjónustu. Við hjá Eldum rétt hlökkum til samstarfsins með Högum og höfum trú á að félagið muni blómstra áfram með nýjum eigendum.''