Hagstofan birti í morgun veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum frá mars – apríl 2022 til sömu mánaða 2023. Þrátt fyrir að margar þjónustugreinar s.s. ferðaþjónusta, eru að rétta úr kútnum sýna heildartölurnar að það sé byrjað að hægja verulega á hagkerfinu.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Arion Banka, segir tölurnar gefa vísbendingu um hvað sé að gerast og að þær eru í samræmi við minni einkaneyslu og samdrátt í kortaveltu heimilanna.
„Það er ekki alveg sami samdráttur í smásölu þarna en það er greinilega farið að hægja á,“ segir Konráð. Hann bendir þó á að veltan samkvæmt virðisaukaskattskýrslum blekki örlítið þar sem breytingar á álverði og annarri hrávöru vegi þungt.
Við síðustu vaxtahækkun peningastefnunefndar Seðlabankans taldi Gunnar Jakobsson að áhrif fyrri vaxtahækkana væru ekki að fullu komin fram og greiddi hann því atkvæði gegn 1,25% hækkun.
Spurður um hvort við séum að sjá þessi áhrif koma fram núna, segir Konráð svo vera en að þetta sé að gerast hraðar en flestir bjuggust við.
„Við [Arion banki] gerðum alltaf ráð fyrir því að það myndi hægja á en ekki svona mikið. Ég held að það verði ágætis hagvöxtur í ár en við erum svartsýnni á næsta ár. Það gæti verið að gerast hraðar en við bjuggumst við.”
„En það er alveg rétt á áhrif vaxtahækkana áttu eftir að koma fram af meiri krafti. Við eigum samt mjög langt í land með að ná verðbólgumarkmiði og að ná verðbólguvæntingum niður,“ segir Konráð sem bendir á að þetta sé eitt af skrefunum í því ferli.

„Það er auðvitað ekki ánægjulegt í sjálfu sér að það sé að hægja á umsvifum í hagkerfinu en þetta er eitt af fyrstu skrefunum til að koma verðbólgunni niður.“
Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum er ekki sama og hagvöxtur þó það sé fylgni þar á milli og bendir Konráð á að þó þetta séu vissulega bráðabirgðartölur sé „þetta ágætis vísbending um hvað er að gerast.“