Hag­vöxtur á loka­fjórðungi síðasta árs var 0,6% sam­kvæmt ný­birtum bráða­birgða­tölum Hag­stofunnar en sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka er það minnsti hag­vöxtur frá því hag­kerfið fór á annað borð að rétta úr kútnum á vor­dögum árið 2021.

Sam­dráttur varð í einka­neyslu, fjár­festingu og út­flutningi þjónustu milli ára.

Helsta á­stæða þess að ekki mældist sam­dráttur á fjórðungnum var snarpur sam­dráttur í inn­flutningi.

Hag­vöxtur á loka­fjórðungi síðasta árs var 0,6% sam­kvæmt ný­birtum bráða­birgða­tölum Hag­stofunnar en sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka er það minnsti hag­vöxtur frá því hag­kerfið fór á annað borð að rétta úr kútnum á vor­dögum árið 2021.

Sam­dráttur varð í einka­neyslu, fjár­festingu og út­flutningi þjónustu milli ára.

Helsta á­stæða þess að ekki mældist sam­dráttur á fjórðungnum var snarpur sam­dráttur í inn­flutningi.

„Svo snarpur hefur sam­dráttur inn­flutnings ekki verið í nærri þrjú ár og skýrist sam­drátturinn bæði af hjaðnandi inn­lendri eftir­spurn og minni að­fanga­þörf út­flutnings­greina,“ skrifar Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Að hans mati áttu sér stað hálf­gerð ham­skipti í hag­kerfinu í fyrra.

Hag­vöxtur mældist tæp 9% á fyrsta árs­fjórðungi enda var þá þjónustu­út­flutningur, einka­neysla og fjár­festing enn að vaxa myndar­lega.

Með hverjum fjórðungi dró svo úr vextinum jafnt og þétt eftir því sem vöxtur neyslu og fjár­festingar snerist í sam­drátt og veru­lega hægði á út­flutnings­vexti.

Þá dró veru­lega úr fjár­festingu í fyrra en 0,6% sam­dráttur mældist í fjár­muna­myndun á síðasta ári og enn er undir­liggjandi sagan hin sama um veru­legan við­snúning innan árs.

„Á það sér í lagi við um fjár­festingu at­vinnu­vega, sem vegur þyngra í þjóð­hags­reikningum en fjár­festing hins opin­bera og í­búða­fjár­festing saman­lagt. Á upp­hafs­fjórðungi ársins óx fjár­muna­myndun at­vinnu­vega um tæp 10% í magni mælt, en á loka­fjórðungi ársins var staðan orðin 15% sam­dráttur. Á heildina litið óx fjár­festing at­vinnu­vega um tæpa prósentu í fyrra,“ skrifar Jón Bjarki.

Þróun í­búða­fjár­festingar var hins vegar öfug við fjár­festingu at­vinnu­vega.

„Þar mældist tæp­lega 8% sam­dráttur í upp­hafi síðasta árs en á loka­fjórðungi ársins var vöxturinn ríf­lega 9%. Er það fagnaðar­efni eftir við­varandi skort á ný­byggingum á markað misserin á undan og endur­speglast ekki síst í betra jafn­vægi á í­búða­markaði undan­farna fjórðunga eftir hraða hækkun í­búða­verðs fyrr á ára­tugnum. Á árinu í heild var í­búða­fjár­festing nánast ó­breytt frá árinu 2022,“ skrifar Jón Bjarki.

Einkaneysla dróst saman undir lok árs

Þá dró fjár­festing hins opin­bera saman um ríf­lega 6% í fyrra en samkvæmt bankanum er sá liður gjarnan býsna sveiflu­kenndur milli ein­stakra fjórðunga.

Einnig var við­snúningur í einka­neyslu á seinni hluta ársins en einka­neysla er einn stærsti undir­liður þjóð­hags­reikninga.

„Þannig óx einka­neyslan um tæp 5% á upp­hafs­fjórðungi síðasta árs. Á þriðja fjórðungi hafði einka­neyslu­vöxturinn hins vegar snúist í sam­drátt og enn bætti í sam­dráttinn á loka­fjórðungi ársins þegar hann mældist ríf­lega 2%. Á heildina litið óx einka­neysla um hálfa prósentu í fyrra. Að far­aldurs­árinu 2020 slepptu hefur einka­neysla ekki vaxið hægar frá árinu 2010.”