Rekstrartekjur Sorpu námu 5,8 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 4,6 milljarða veltu árið 2021. Þá tvöfaldaðist hagnaðurinn á milli ára og nam 687 milljónum króna í fyrra.

Megin starfsemi Sorpu er fólgin í meðhöndlun úrgangs fyrir sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem eru jafnframt eigendur félagsins. Þar af er Reykjavíkurborg stærsti hluthafi félagsins með 58,3% hlut.

Í skýrslu stjórnar segir að samlagið muni hætta urðun í Álfsnesi að fullu fyrir lok árs 2023 og muni hefja útflutning á úrgangi til orkuvinnslu á árinu 2023.

Rekstrargjöld félagsins námu tæpum 4,9 milljörðum króna og jukust um 17% milli ára. Þá jókst fjármagnskostnaður félagsins um tæp 70% á milli ára og nam 217 milljónum króna.

Eignir Sorpu voru samtals 9,6 milljarðar króna í lok árs, og stóð eigið fé í 5,7 milljörðum króna. Jón Viggó Gunnarsson var ráðinn framkvæmdastjóri Sorpu í lok árs 2022, en þar áður var hann deildarstjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra.