Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech, sem þróaði fyrsta bóluefnið gegn kórónuveirunni í samstarfi við bandaríska lyfjarisann Pfizer, hagnaðist um 1,8 milljarða evra á þriðja ársfjórðungi, um 263 milljarða króna.

Hagnaðurinn dróst verulega saman á milli ára, en hann nam 3,2 milljörðum evra á sama ársfjórðungi í fyrra, að því er kemur fram í grein hjá Financial Times.

Velta félagsins dróst saman um 43% á milli ára, fór úr 6,1 milljörðum evra í 3,5 milljarða evra. Minni velta og hagnaður skýrist einkum af minni eftirspurn eftir bóluefni gegn Covid-19.

Félagið áætlar að tekjur þess af bóluefninu muni nema á bilinu 16 til 17 milljörðum evra á árinu 2022. Til samanburðar námu tekjurnar 19 milljörðum evra á síðasta ári.