Byggingavöruverslunin Byko, sem er í eigu Norvik-samstæðunnar, hagnaðist um 777 milljónir króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 1,2 milljarða króna árið 2023.

Stjórn félagsins leggur ekki til tillögu um arðgreiðslu til hluthafa á aðalfundi félagsins í ár, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Velta Byko stóð nánast í stað milli ára og nam 29,9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 28,6% milli ára og nam 1.249 milljónum króna í fyrra, samanborið við 1.748 milljónir árið áður.

Ársverk voru 410 í fyrra samanborið við 416 árið 2023. Laun og tengd gjöld námu 4,6 milljörðum og jukust um 4,1% milli ára.

Hóflega bjartsýn fyrir seinni hluta ársins

„Helstu óvissuþættir að mati stjórnar snúa að þróun á uppbyggingu á íbúðamarkaði. Þó er það mat stjórnar að óhætt sé að leyfa sér hóflega bjartsýni að íbúðamarkaður taki við sér seinni hluta ársins 2025,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins sem er dagsett 12. mars sl.

Stjórn Byko metur óverulega áhættu með hliðsjón af stöðu heimsmála þegar horft er til aðfangakeðjunnar bæði hvaða varðar truflanir á flæði vara og verðhækkunum á hrávörumarkaði. Aðfangakeðjan hefur að mati stjórnarinnar leitað jafnvægis.

„Stjórn félagsins metur sem svo að framtíðarhorfur séu góðar fyrir félagið og efnhagsumhverfið muni halda áfram á batna þegar líður inn á árið. Verkefnastaða á fagaðilamarkaði er ágæt og er það mat stjórnar að þar megi reikna með áframhaldandi vexti sem muni birtast eftir miðbik ársins.“

Eignir Byko voru bókfærðar á 10 milljarð króna og eigið fé nam tæplega 4 milljörðum króna í árslok 2023.

Hagnaður Norvik tvöfaldast milli ára

Móðurfélagið Norvik hagnaðist um tæplega 3,1 milljarð króna í fyrra samanborið við 1,4 milljarða árið áður. Velta samstæðunnar jókst um 62% milli ára, úr 35,3 milljörðum í 57,2 milljarða.

Aukna veltu má einkum rekja til þess að Norvik gerði, undir lok árs 2023, yfirtökutilboð í Bergs Timber AB sem Norvik átti fyrir 58,67% hlut. Norvik átti 98,35% beint og óbeint í árslok 2023. Á árinu 2024 eignaðist Norvik allt hlutafé í félaginu, beint og óbeint í gegnum sænskt dóttufélag, Kivron AB, sem var stofnað sérstaklega í kringum yfirtökuna. Yfirtökuferlinu lauk formlega í febrúar 2025 þar sem ekki kom til frekara uppgjörs við hluthafa í félaginu.

Bergs Timber AB heldur utan um rekstur sjö dótturfélaga sem eru með rekstur framleiðslufyrirtækja í timburiðnaði og sölu á timburtengdum afurðum í Svíþjóð, Lettlandi, Póllandi og Bretlandi.

Í upphafi árs 2025 gekk í gegn sala á sögunarmyllunni Vika Wood í Lettlandi sem var eitt af dótturfélögum Bergs Timber. Fyrr á árinu 2024 seldi Bergs Timber sölustarfsemi í Bretlandi, Bitus UK, og einnig var seldur rekstur Fågelfors í Svíþjóð. Stjórn Norvik segir að þessi starfsemi hafi ekki verið hluti af kjarnastarfsemi Bergs Timber og arðsemi hennar ekki verið ásættanleg.

Fram kemur að helstu fjárfestingar Norvik í fyrra voru í áframhaldandi uppbyggingu fasteigna á Íslandi í gegnum dótturfélagið Smáragarð ehf. sem var með eignir upp á 32 milljarða í lok síðasta árs.

Eignir Norvik námu 75,9 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 40,2 milljarðar.

Norvik er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)