Embla Medical, móðurfélag Össurar, hagnaðist um 22 milljónir dala eða um 3,0 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, sem samsvarar 58% aukningu frá sama tímabili í fyrra. Embla birti árshlutauppgjör í morgun.

Tekjur samstæðunnar á fjórðungnum námu 214 milljónum dala eða um 29,4 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 11% vexti í staðbundinni mynt og 7% innri vexti. Á fjórðungnum var 9% innri vöxtur í sölu á stoðtækjum, 1% á spelkum og stuðningsvörum, og 9% í þjónustu við sjúklinga.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 47 milljónum dala eða um 6,4 milljörðum króna. Það samsvarar 22% af veltu félagsins en til samanburðar var sama hlutfall 19% á þriðja ársfjórðungi 2023.

„Okkur miðar jafnframt vel að vaxtarstefnu okkar „Growth’27“ sem við kynntum í byrjun síðasta árs en fjárhagsáætlun fyrir 2024 helst óbreytt í 6-8% innri vöxtur og ~20% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu.

„Frá og með 1. september 2024 jók opinbera sjúkratryggingakerfið í Bandaríkjunum (Medicare) verulega aðgengi að hágæða stoðtækjum. Iðnaðurinn er nú í óða önn að aðlaga sig að breyttu umhverfi þar sem mun fleiri aðilar hafa nú möguleika á að fá hátæknihné, sem mun koma til með að stórbæta lífsgæði fólks.“