Ísgerðin Emmessís skilaði 142 milljóna króna hagnaði á árinu 2023 sem er um 35% aukning frá fyrra ári þegar félagið hagnaðist um 105 milljónir. Stjórn leggur til að greiddur verði arður til móðurfélagsins, 1912 ehf., að fjárhæð 150 milljónir á árinu 2024 að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Ísgerðin Emmessís skilaði 142 milljóna króna hagnaði á árinu 2023 sem er um 35% aukning frá fyrra ári þegar félagið hagnaðist um 105 milljónir. Stjórn leggur til að greiddur verði arður til móðurfélagsins, 1912 ehf., að fjárhæð 150 milljónir á árinu 2024 að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Tekjur ísgerðarinnar jukust um 14% milli ára og námu 1,7 milljörðum. Rekstrargjöld jukust aðeins minna eða um 12,3% frá fyrra ári og námu 1.472 milljónum króna. Þar af voru laun og launatengd gjöld um 387 milljónir sem er 7,9% aukning frá fyrra ári. Ársverkum fækkaði úr 36 í 34 milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) Emmessíss nam rúmum 228 milljónum sem er um 26% aukning frá árinu 2022.

„Rekstur félagsins var í samræmi við áætlanir ársins þrátt fyrir áskoranir í ytra umhverfi,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningnum. „Rekstrarniðurstaða ársins sýnir að hagræðing og stöðugar umbætur undanfarinna ára hafa skilað árangri. Eðli rekstrarins er nokkuð háð veðri og gott sumarveður hafði jákvæð áhrif á sölu.“

Stjórnin minnist einnig á að félagið stóðst FSSC 22000 matvælaöryggisvottun sem markvisst hafi verið unnið að undanfarin tvö ár. Áfram sé unnið að stöðugum umbótum í rekstri og framleiðslu.

Eignir ísgerðarinnar voru bókfærðar á 770 milljónir í árslok 2023 og eigið fé var um 548 milljónir. Emmessís er dótturfélag 1912-samstæðunnar, sem er í eigu Ara, Bjargar og Kristínar Fenger og fjölskyldu.