Íslandsbanki hagnaðist um 7,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 7,6 milljarða hagnað á sama tíma í fyrra. Bankinn hefur hagnast um 18,6 milljarða króna það sem af er ári.

Til samanburðar hagnaðist Arion banki um 4,9 milljarða króna og Landsbankinn um 5,8 milljarða á fjórðungnum. Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var 14,4% á ársgrundvelli sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans, að því er kemur fram í ársreikningi.

Hagnaður bankans reyndist töluvert meiri en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um. Sjö þeirra spáðu því að bankinn hefði hagnast um 6,3 milljarða króna á fjórðungnum sem samsvarar 12,2% arðsemi eigin fjár. Bjartsýnasti greinandinn gerði ráð fyrir 7 milljarða hagnaði, en svartsýnasti 5,4 milljarða hagnaði.

Í ársreikningi segir að ástæður góðrar afkomu bankans sé sterk tekjumyndun og jákvæð virðisbreyting útlána. Hreinar vaxtatekjur jukust um 28,7% á milli ára og námu 11,3 milljörðum á fjórðungnum, en hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans skýrir hækkunina á milli ára.

Þá námu hreinar þóknanatekjur 3,5 milljörðum króna og jukust um 2,6% milli ára. Auknar tekjur í greiðslumiðlun leiddu hækkunina.

Útlán til viðskiptavina stóðu í stað á fjórðungnum, en innlán frá viðskiptavinum jukust um tæplega 25 milljarða, eða um 3,3%. Eigið fé bankans nam þá 211,6 milljörðum í lok september.

Ríkissjóður á enn 42,5% hlut í Íslandsbanka. Þess fyrir utan eru lífeyrissjóðir áberandi á lista yfir stærstu hluthafa bankans. Bandaríska sjóðastýringafélagið Capital Group á 4,89% hlut, en félagið hefur allt frá skráningu Íslandsbanka á markað í fyrrasumar verið einn af stærri hluthöfum bankans.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

„Afkoma Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var gríðarsterk þar sem hagnaður var 7,5 ma. kr. og arðsemi eigin fjár 14,4% sem er yfir fjárhagsmarkmiðum bankans. Tekjur af kjarnastarfsemi héldu áfram að vaxa þar sem samanlagður vöxtur vaxta- og þóknanatekna var 21%. Kostnaður lækkaði að raunvirði um 5,5% og vorum við umfram markmið okkar um kostnaðarhlutfall sem var 36.3% á fjórðungnum, sem er óvanalega lágt sökum árstíðabundinnar sveiflu.

Útlán til viðskiptavina stóðu í stað á meðan innlán jukust um 3,3% sem styrkir okkar helstu fjármögnunarstoð enn frekar. Íslandsbanki býður samkeppnishæf vaxtakjör og hefur stafræni reikningurinn Ávöxtun, sem býður ein bestu vaxtakjör á markaðnum, slegið í gegn á meðal viðskiptavina okkar. Bankinn jók enn frekar dreifingu í markaðsfjármögnun sinni með útgáfu sértryggðra skuldabréfa í evrum og víkjandi skuldabréfa í krónum í október.

Það var stór áfangi fyrir bankann þegar sala Símans á Mílu til Ardian France SA lauk en Íslandsbanki var í lykilhlutverki við sölu á Mílu. Íslandsbanki er leiðandi í fjárfestingarbankastarfsemi á Íslandi og sýndi þetta verkefni vel getu bankans til að leiða og samþætta fjölþætt verkefni.

Samhliða útgáfu fjárhagsuppgjörs fyrir 3F22 birtum við skýrslu um vörður okkar að kolefnishlutleysi. Helstu tækifærin til að draga úr losun tengdri útlánastarfsemi bankans eru í umskiptum yfir í grænar samgönguleiðir í lofti, á landi og á sjó. Ein af helstu niðurstöðum skýrslunnar er að losun frá útlánastarfsemi muni minnka um 60% fyrir árið 2030 og um 85% fyrir árið 2040.

Íslandsbanki hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu fjórða árið í röð sem var mikill heiður. Þetta hvetur okkur áfram á þeirri braut að hlúa að jafnréttismálum og vera hreyfiafl til góðra verka. Það var jafnframt einstaklega ánægjulegt að sjá fullan sal gesta á fundi okkar um konur og fjármál en bankinn hefur haldið reglulega fundi tengda jafnréttismálum síðan 2015.

Ég er stolt af þeim árangri sem bankinn náði á fjórðungnum. Hagnaðurinn er traustur og kostnaði haldið í skefjum, eignagæði eru sterk og útlánin eru með góða veðstöðu. Íslenskt efnahagslíf heldur áfram að vera þróttmikið á umbrotatímum og mun Íslandsbanki áfram leggja sitt af mörkum til áframhaldandi velgengni þess.“