Hagnaður af grunn­rekstri Lands­virkjunar á þriðja árs­fjórðungi nam 8,7 milljörðum króna og hand­bært fé frá rekstri 8,5 milljörðum.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður Lands­virkjunar um 110 milljónum dala sem sam­svarar um 15,1 milljarði á gengi dagsins.

Hagnaður nam 159 milljóna dala hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra og er því um 48,6 milljóna dala sam­drátt að ræða eða því sem nemur 6,7 milljörðum króna á gengi dagsins

Eigin­fjár­hlut­fall Lands­virkjunar jókst á fjórðungnum og nam 62,4% í lok tíma­bilsins.

Rekstrar­tekjur lækkuðu á þriðja árs­fjórðungi miðað við sama tíma­bil í fyrra en Lands­virkjun var með met­tekjur í fyrra.

Sam­kvæmt upp­gjörinu dróst selt magn saman á þriðja fjórðungi, verð­tenging í einstökum samningi breyttist ásamt sam­drætti í inn­leystum áhættu­vörnum.

„Rekstur fyrir­tækisins gengur áfram vel í sögu­legum saman­burði, þótt hann jafnist ekki á við metaf­komu ársins 2023. Hagnaður af grunn­rekstri á þriðja árs­fjórðungi nam 65 milljónum bandaríkja­dala, eða rúm­lega 8,7 milljörðum króna, og dróst saman um 31%” segir Hörður Arnar­son, for­stjóri Lands­virkjunar.

Rekstrar­tekjur Lands­virkjunar á fyrstu níu mánuðum ársins námu 411 milljónum dala eða um 56,5 milljörðum króna. Mun það vera lækkun úr 431 milljón dala í fyrra.

„Aðstæður voru áfram krefjandi á þriðja fjórðungi. Vatns­bú­skapur var sögu­lega lakur eftir þurrt og kalt sumar á há­lendinu og litla bráðnun jökla. Rekstrar­tekjur drógust saman miðað við sama tíma­bil 2023 í takti við minna selt magn, auk breytinga á verð­tengingu í samningi við stór­notanda og lækkunar inn­leystra áhættu­varna.

Fjár­hags­legur styrkur Lands­virkjunar vex áfram. Eigin­fjár­hlut­fall er nú rúm­lega 62% og láns­hæfis­mats­fyrir­tækið S&P stað­festi A-langtíma­ein­kunn fyrir­tækisins með stöðugum horfum í lok septem­ber,“ segir Hörður.