Hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar á þriðja ársfjórðungi nam 8,7 milljörðum króna og handbært fé frá rekstri 8,5 milljörðum.
Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hagnaður Landsvirkjunar um 110 milljónum dala sem samsvarar um 15,1 milljarði á gengi dagsins.
Hagnaður nam 159 milljóna dala hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra og er því um 48,6 milljóna dala samdrátt að ræða eða því sem nemur 6,7 milljörðum króna á gengi dagsins
Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar jókst á fjórðungnum og nam 62,4% í lok tímabilsins.
Rekstrartekjur lækkuðu á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra en Landsvirkjun var með mettekjur í fyrra.
Samkvæmt uppgjörinu dróst selt magn saman á þriðja fjórðungi, verðtenging í einstökum samningi breyttist ásamt samdrætti í innleystum áhættuvörnum.
„Rekstur fyrirtækisins gengur áfram vel í sögulegum samanburði, þótt hann jafnist ekki á við metafkomu ársins 2023. Hagnaður af grunnrekstri á þriðja ársfjórðungi nam 65 milljónum bandaríkjadala, eða rúmlega 8,7 milljörðum króna, og dróst saman um 31%” segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Rekstrartekjur Landsvirkjunar á fyrstu níu mánuðum ársins námu 411 milljónum dala eða um 56,5 milljörðum króna. Mun það vera lækkun úr 431 milljón dala í fyrra.
„Aðstæður voru áfram krefjandi á þriðja fjórðungi. Vatnsbúskapur var sögulega lakur eftir þurrt og kalt sumar á hálendinu og litla bráðnun jökla. Rekstrartekjur drógust saman miðað við sama tímabil 2023 í takti við minna selt magn, auk breytinga á verðtengingu í samningi við stórnotanda og lækkunar innleystra áhættuvarna.
Fjárhagslegur styrkur Landsvirkjunar vex áfram. Eiginfjárhlutfall er nú rúmlega 62% og lánshæfismatsfyrirtækið S&P staðfesti A-langtímaeinkunn fyrirtækisins með stöðugum horfum í lok september,“ segir Hörður.