Fjarskiptafélagið Nova hagnaðist um 206 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi, sem er 29% lækkun frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 289 milljónir. Í uppgjörstilkynningu Nova segir að lækkunin skýrist helst af hærri fjármagnsgjöldum, sem m.a. rekja megi til hærri stöðu leiguskuldbindinga og hærri verðbólgu.

Heildartekjur Nova á þriðja ársfjórðungi voru 3.166 milljónir, sem er 2,4% aukning frá sama tíma í fyrra. Þjónustutekjur jukust um 9% frá fyrra ári og námu 2.353 milljónum en vörusölutekjur drógust saman um fimmtung og námu 493 milljónum.

Rekstrarkostnaður jókst lítillega á milli ára og nam 2.155 milljónum. Laun og launatengd gjöld jukust um 13,5% og námu 377 milljónum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 6,8% á milli ára og nam rúmum milljarði króna. Vaxtagjöld jukust úr 108 milljónum í 257 milljónir á milli ára.

Eignir Nova voru bókfærðar á 22,8 milljarða í lok september. Eigið fé nam 8,9 milljörðum.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova:

„Dansinn hjá Nova er taktfastur og stigmagnast alveg eins og við viljum hafa það. Ársfjórðungurinn er samkvæmt væntingum þar sem viðskiptavinum heldur áfram að fjölga og þjónustutekjurnar þar með, innviðauppbygging er á áætlun og markaðsrannsóknir sýna vörumerkið vera að styrkjast. Rekstrarniðurstaðan endurspeglar það með jákvæðum hætti.

Neyslumynstur er að breytast á auknum hraða sem sést best á því að alþjóðlegar efnisveitur eru nú ráðandi á sjónvarpsmarkaði hér á landi á sama tíma og við sjáum að 40% markaðarins eru ekki lengur með myndlykil. Þessi þróun skapar mikil tækifæri fyrir Nova þar sem viðskiptavinir okkar kjósa fjarskiptaþjónustu Nova óháð sjónvarpsefni.

Viðskiptamódel Nova er því ólíkt og einfaldara öðrum á smásölumarkaði. Það eru miklar breytingar á fjarskiptamarkaði og samkeppnisforskot Nova liggur í því að félagið heldur á allri virðiskeðjunni eftir að hafa fjárfest í sterkum innviðum undanfarin ár. Samhliða innviðafjárfestingum sjáum við jákvæð áhrif á reksturinn koma fram þar sem framlegðarhlutfallið er að hækka. Við í Nova liðinu sjáum þannig mikil vaxtartækifæri í náinni framtíð og við horfum bjartsýn fram á veginn.”