Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 255 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 2,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Hagnaður félagsins af vátryggingastarfsemi fyrir skatta dróst saman um 35% á milli ára á fjórðungnum og nam 478 milljónum króna.
Hins vegar tapaði Sjóvá 163 milljónum króna fyrir skatta á fjárfestingastarfseminni. Haft er eftir Hermanni Björnssyni forstjóra Sjóvár að miklar sveiflur hafi verið í ávöxtun fjárfestingaeigna og markaðir erfiðir það sem af er ári vegna hárrar verðbólgu og hærri vaxta.
„Afkoman af fjárfestingastarfsemi er undir því sem við væntum að jafnaði en viðunandi í ljósi aðstæðna á markaði,“ sagði Hermann í tilkynningu.
Iðgjaldavöxtur nam 12,4% á fjórðungnum, þar af var 16% vöxtur á fyrirtækjamarkaði og 10% á einstaklingsmarkaði. Félagið gerir ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði á bilinu 1,4-1,8 milljarðar króna og að samsett hlutfall verði um 95-97%.
Samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 11. mars að greiða arð sem nemur 3,14 krónum á hlut vegna ársins 2021, eða sem nemur 3,85 milljörðum króna, en greiðsludagur var 30. mars. Hrólfssker ehf. er stærsti hluthafi Sjóvár, á 15,17% hlut. Snæból ehf., félag í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, á 9,96% hlut.