Stærstu bílaumboðin á landinu skiluðu tvöfalt meiri hagnaði síðasta árið borið saman við árið áður. Mesti hagnaðurinn í fyrra var hjá Toyota á Íslandi eða tæplega 2,4 milljarðar króna. Þar á eftir kom BL með 1,6 milljarða króna í hagnað. Þrátt fyrir tvöfalt meiri hagnað hjá stóru umboðunum í heild sinni var allur gangur á aukningunni milli ára. Hagnaðurinn jókst mest hjá Toyota eða 118% en langminnst hjá Brimborg eða 13%.
Sé litið til annarra smærri umboða sést að hagnaðaraukningin var þó langmest hjá Tesla umboðinu en hagnaðurinn tæplega þrefaldaðist milli ára og fór úr 64 milljónum í 181 milljón. Tesla hefur tekið alheimsmarkaðinn á fólksbílum með trompi á undanförnum árum og er íslenski markaðurinn þar ekki undanskilinn.
Mikill vöxtur í einkaneyslu og innflutningi á bílaleigubílum
Mikla hagnaðaraukningu milli 2021 og 2022 má bæði skýra með mikilli aukningu í neyslu heimila en einnig auknum innflutningi á bílaleigubílum vegna aukins ferðamannafjölda. Einkaneyslan jókst mikið milli 2021 og 2022 eða um 8,5% sem var mesta aukning hennar síðan 2005. Það ár var einmitt mikil aukning í innflutningi í bílum. Fjöldi bílaleigubíla í umferð jókst um 35% milli ára sem er metaukning en tölurnar ná aftur til ársins 2011.
Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2023 sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Hægt er að lesa greinina í heild hér.
Upphaflega fréttin hófst á umfjöllun á tölum fyrir 2021 en ekki 2022. Þetta hefur verið leiðrétt.