Hagnaður Tesla á öðrum fjórðungi dróst saman um 45% milli ára og var auk þess talsvert undir spám greiningaraðila. Hlutabréfaverð rafbílaframleiðandans hefur lækkað um hátt í 8% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs.

Tesla hagnaðist um 1,48 milljarða dala á fjórðungnum samanborið við 2,7 milljarða dala á öðrum fjórðungi 2023. Greiningaraðilar áttu von á að hagnaðurinn yrði í kringum 1,9 milljarðar dala.

Tekjur Tesla jukust um 2% námu 25,5 milljörðum dala sem var lítillega umfram spár. Tekjuvöxtinn má einkum rekja til mikillar vaxtar í starfsemi félagsins í kringum orkugeymslu og óvenju mikillar tekna af kolefnisheimildum, að því er segir í frétt Financeial Times.

Rafbílaframleiðandinn tilkynnti fyrr í þessum mánuði að félagið hefði afhent 444 þúsund bíla á öðrum fjórðungi eða um 4,7% færri en á sama tíma í fyrra.

Rekstrargjöld jukust um 39% milli ára sem skýrist að stórum hluta af einskiptiskostnaði vegna hópuppsagnar í apríl. Tesla tilkynnti þá um að það hygðist segja upp um 14 þúsund manns eða um 10% af starfsfólki félagsins.

Sjálfkeyrandi bílar muni stórauka markaðsvirði Tesla

Elon Musk, forstjóri Tesla, tilkynnti formlega í gærkvöldi um að félagi hefði frestað kynningu á fyrirhuguðum sjálfkeyrandi leigubíl frá ágúst til október.

Hann hélt því fram að sjálfkeyrandi bílaflotinn gæti reynst afar verðmætur fyrir Tesla og komið markaðsvirði félagsins upp í allt að 5 þúsund milljarða dala, eða um sex sinnum hærra en núverandi markaðsvirði Tesla.