Íslenska hátæknifyrirtækið Vaxa Technologies hagnaðist um 20,6 milljónir króna á síðasta ári. Félagið ræktar smáþörunga til manneldis í jarðhitagarði ON á Hellisheiði.

Rekstrartekjur félagsins námu 591 milljónum króna. Þar af nam seld þjónusta og seldar vörur 459 milljónum króna, styrkir 16 milljónum og endurgreiðsla vegna skattafrádráttar 116 milljónum króna.

Eignir félagsins námu 3.856 milljónum í lok árs 2021, en þar af var handbært fé 2,8 milljarðar króna. Verksmiðja Vaxa á Hellisheiði er bókfærð á 569 milljónir, framleiðslueiningar á 372 milljónir og áhöld og tæki á 59 milljónir. Eigið fé félagsins var í árslok um 3,5 milljarðar króna.

Í ársreikningi segir að faraldurinn hafi hvorki haft teljandi áhrif á rekstur félagsins á árinu 2021 né heldur 2022. Uppbyggingaráformum hafi þó seinkað um nokkra mánuði vegna faraldursins.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í vor sagði Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Vaxa Technologies, að stefnt væri að því að tekjur félagsins verði orðnar 10-12 milljarðar á ári innan fimm ára. Auk þess stefni félagið á skráningu á markað í kauphöll í New York innan tveggja ára.

Vaxa Technologies var stofnað árið 2017 en sumarið áður þáði ísrealski efnafræðingurinn Isaac Berzin boð um að skoða aðstæður á Íslandi. Hann er þekktur í smáþörungaheiminum en hann var á lista tímaritsins Time árið 2007 yfir 100 áhrifamestu leiðtoga, hugsuði og vísindamenn samtímans. Í kjölfar heimsóknarinnar hönnuðu Isaac, ásamt hópi bandarískra vísindamanna E 2 F tækni sína utan um aðstæðurnar sem bjóðast á Hellisheiði.

Félagið lauk hlutafjárútboði í lok síðasta árs og safnaði 37 milljónum dala, en helstu fjárfestar voru íslenskir, með um 50% eignarhlut. Framleiðslugeta Vaxa Technologies hefur að undanförnu verið um 30 tonn af smáþörungum á ári. Nýlega var verksmiðjan á Hellisheiði stækkuð og er áætlað að í enda árs 2022 verði framleiðslugetan orðin 80-100 tonn á ári.