Hagvöxtur, þ.e. breyting á landsframleiðslu á föstu verðlagi, nam 0,6% á árinu 2024 miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Áætlað er að nafnvirði vergrar landsframleiðslu hafi verið 4.616 milljarðar króna.
Á fjórða ársfjórðungi mældist aukning landsframleiðslunnar 2,3% að raunvirði, þjóðarútgjöld jukust um 6,1% en neikvætt framlag utanríkisviðskipta vó þar á móti.
Fjármunamyndun megindrifkraftur hagvaxtar
Hagstofan segir að raunaukning fjármunamyndunar um 7,5% hafi verið megindrifkraftur hagvaxtar á síðasta ári en jafnframt skilaði aukin sam- og einkaneysla jákvæðu framlagi. Hins vegar hafi framlag birgðabreytinga og utanríkisverslunar til hagvaxtar verið neikvætt.
Þjóðarútgjöld, þ.e. samtala neyslu, fjármunamyndunar og birgðabreytinga, jukust um 2,3% að raunvirði sem var sama aukning og milli 2022 og 2023.
Endurskoða hagvaxtartölur fyrri ára
Samhliða útgáfu landsframleiðslunnar fyrir árið 2024 hefur Hagstofan endurskoðað áður útgefnar tölur fyrir árin 2021-2023.
„Hagvöxtur árið 2023 var þannig 5,6% í stað 5,0% í áður birtum tölum. Fyrir árið 2022 er hagvöxtur óbreyttur 9,0% og árið 2021 er nú metið að landsframleiðslan hafi aukist um 5,0% í stað 5,3% að raunvirði.“