Breska fyrirtækið Unilever, sem framleiðir rjómaísanna Cornetto og Ben & Jerry‘s, segist standa við þá ákvörðun um að halda áfram starfsemi í Rússlandi einu og hálfi ári eftir innrás í Úkraínu. Fyrirtækið segir það auðveldara sagt en gert að yfirgefa landið.
Afstaða fyrirtækisins kemur í ljósi greiningar frá The Moral Rating Agency sem segir að fyrirtækið leggi 579 milljónir punda til rússneska hagkerfisins á hverju ári.
Fjöldi vestrænna fyrirtækja á borð við Apple, Levi‘s og McDonald‘s hafa þegar yfirgefið Rússland í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, bæði út af siðferðislegum ástæðum en líka vegna þess að refsiaðgerðir hafa gert starfsemi þar í landi erfiða.
„Unilever verður að hætta að fela sig á bak við ársuppgjör sitt og horfast í augu við þann raunveruleika að sala á ís auðveldar Pútín kaup á byssukúlu,“ segir Mark Dixon, stofnandi Moral Rating Agency.
Fyrirtækið segist hins vegar hafa stöðvað bæði útflutning og innflutning til og frá Rússlandi. Þar að auki hafi Unilever hætt að auglýsa sig þar og segist einungis framleiða hversdagsmat og hreinlætisvörur.
„Við viljum hafa það alveg á hreinu að við erum ekki að verja viðskipti okkar í Rússlandi. Hins vegar, fyrir fyrirtæki eins og Unilever er ekki svona einfalt að yfirgefa landið.“
Rúmlega 3.000 manns vinna fyrir Unilever í Rússlandi og segir fyrirtækið að skyldi það ákveða að fara þá myndi rússneska ríkið hlaupa í skarðið og taka yfir vörumerkið. „Það hefur gengið erfiðlega að finna leið til að selja frá okkur viðskiptin á þannig hátt að rússneska ríkið njóti ekki hugsanlegs ávinnings af því.“
Unilever segir jafnframt að í ljósi aðstæðna séu engir æskilegir valkostir til staðar annað en að halda áfram starfsemi með ströngum takmörkunum.