Hagstofa Íslands áætlar út frá bráðabirgðatölum að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 83,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 7,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) ársfjórðungsins.

Til samanburðar nam hallinn á sama tímabili í fyrra 36,1 milljarður króna eða 3,3% af vergri landsframleiðslu þess ársfjórðungs.

Hagstofa Íslands áætlar út frá bráðabirgðatölum að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 83,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 7,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) ársfjórðungsins.

Til samanburðar nam hallinn á sama tímabili í fyrra 36,1 milljarður króna eða 3,3% af vergri landsframleiðslu þess ársfjórðungs.

Tekjur jukust um 5,2% en útgjöld um 14,5%

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera á öðrum fjórðungi hafi aukist um 5,2% frá sama tímabili í fyrra og numið 476,6 milljörðum króna. Tekjur af sköttum og tryggingagjaldi jukust um 4,0% og eignatekjur um 10,8%.

Áætlað er að heildarútgjöld hafi numið 560 milljörðum króna á öðrum fjórðungi og aukist um 14,5% frá sama tímabili fyrra árs.

„Helsta skýringin á slakri afkomu hins opinbera eru aukin útgjöld vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík. Áhrifin eru einnig áberandi á fjórða ársfjórðungi 2023. Úrræði ríkissjóðs til að tryggja örugga afkomu Grindvíkinga, greiðslur úr náttúruhamfarasjóði vegna húsnæðis sem hefur verið dæmt ónýtt og kaup á fasteignum í Grindavík eru færð sem tilfærsluútgjöld.“

Áréttað er að kaup ríkissjóðs á fasteignum í Grindavík séu að svo stöddu ekki færð sem fjárfesting þar sem mikil óvissa ríki um virði fasteigna á svæðinu. Hagstofan segir að þessi útgjaldaflokkun kunni að verða endurskoðuð síðar.

Hallinn 86 milljarðar í fyrra

Hagstofan birti einnig tölur í morgun um tekjuafkomu hins opinbera á síðasta ári. Tekjuafkoman var neikvæð um 85,9 milljarða króna árið 2023 eða sem nemur 2,0% af vergri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var afkoman neikvæð um 155 milljarða króna árið 2022 eða 4,0% af VLF.

Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 223,2 milljarða á milli áranna 2022 og 203, eða 13,5%, á meðan útgjöld hins opinbera jukust um 154,0 milljarða króna eða 8,5%.

Tekjur hins opinbera námu 1.880 milljörðum króna árið 2023 eða sem nemur 43,5% af VLF. Útgjöld hins opinbera námu 1.966 milljörðum króna eða sem nemur um 45,5% af VLF.