Hlutabréf Brims og Hampiðjunnar hafa lækkað um meira en 3% það sem af er degi. Bæði félögin birtu uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,8% í 1,4 milljarða króna veltu í dag.

Gengi Hlutabréfa Hampiðjunnar stendur í 109 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð og hefur lækkað um 4% í 87 milljóna króna veltu í dag. Til samanburðar var dagslokagengi Hampiðjunnar síðast lægra í lok árs 2022.

Hampiðjan greindi í uppgjörstilkynningu í gær að félagið hefði áfram fundið fyrir sölutregðu á síðasta ársfjórðungi. Rekstrartekjur Hampiðjunnar á þriðja fjórðungi drógust saman um 7,7% milli ára og EBITDA-hagnaður félagsins á fjórðungnum lækkaði um 6,4% frá sama tímabili í fyrra.

Hlutabréfaverð Brims hefur lækkað um 3,2% í tólf milljóna króna veltu. Gengi hlutabréfa Brims stendur nú í 73,2 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í ágúst síðastliðnum.

Hagnaður Brims á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 22% frá sama tímabili í fyrra og nam 26 milljónum evra, eða um 3,9 milljörðum króna.

Síldarvinnslan birti einnig uppgjör í gær. Hlutabréf Síldarvinnslunnar hafa lækkað um 1,3% í 19 milljóna króna veltu.