Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, funduðu í dag með héraðsstjóra Múrmansk, Marínu Kovtun, en þar eru mikil umsvif í sjávarútvegi, að því er segir í frétt utanríkisráðuneytisins.
Ráðherra fylgdi með þessum fundi eftir Múrmanskferð fulltrúa tíu íslenskra fyrirtækja sem öll tengjast sjávarútvegi, í nóvember en á fundinum í dag var rætt um frekara samstarf á sviði umhverfismála, ferðamála og víðtæka samvinnu á sviði sjávarútvegs.
Kovtun var einkum áhugasöm um starfsemi Sjávarklasans og bauð utanríkisráðherra henni til Íslands til að kynna sér sjávarútvegsmál.
Fyrirtækin tíu sem sendu fulltrúa til Múrmansk voru Naust Marine, Borgarplast, Hampiðjan, Skaginn3X, Marel, Navis, Valka, Promens og Nautic.
Góður árangur var af ferðinni, Hampiðjan hefur nú opnað skrifstofu í borginni og nokkur af fyrirtækjunum hafa þegar selt búnað og/eða fengið verkefni. Viðskiptasendinefndin hitti í ferð sinni tugi fulltrúa fyrirtækja og annarra aðila sem að sjávarútvegi koma og kynntu starfsemi sína fyrir heildarsamtökum sjávarútvegs í Múrmansk.
Fyrir dyrum stendur mikil endurnýjun rússneska skipaflotans. Sendiráð Íslands í Moskvu hefur unnið að því að undanförnu að kynna þá tækni sem Íslendingar geta lagt af mörkum og átti Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra nýlega fund með sjávarútvegsráðherra Rússlands til að kynna áhuga íslenskra fyrirtækja á samstarfi á sviði sjávarútvegs.