Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) hagnaðist um 25,3 milljónir króna árið 2023 samanborið við 31,2 milljóna tap árið 2022 sem litaðist af sveitarstjórnarkosningum. Ársreikningur flokksins fyrir árið 2023 hefur verið birtur á vef Ríkisendurskoðunar.

Eignir VG voru bókfærðar á 54,1 milljón króna, en þar af var handbært fé upp á 45,6 milljónir króna. Þá á flokkurinn eina fasteign, Brekkugata 7a á Akureyri, sem er bókfærð á 4,4 milljónir en fasteignamat hennar er 18,2 milljónir. Eigið fé VG var 50,4 milljónir.

Rekstrartekjur VG námu 117,2 milljónum árið 2023. Stærsti tekjuliðurinn er framlag frá ríkissjóði sem nem 99 milljónum króna í fyrra.

Þar á eftir komu framlög frá einstaklingum sem námu 7,5 milljónum. Stærstu framlögin komu m.a. frá Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi formann VG og forsætisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, núverandi formanni VG, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, varaformanni VG, Orra Páli Jóhannssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Steinunni Þóru Árnadóttur, og Stefáni Pálssyni.

VG fékk 1,6 milljónir í framlög frá lögaðilum í fyrra. Stærsta framlagið kom frá Síldarvinnslunni sem lagði fram 550 þúsund krónur.

Rekstrargjöld VG námu 94,3 milljónum í fyrra. Til samanburðar voru rekstrargjöld VG 153,9 milljónir árið 2022, en þar af voru 73,8 milljónir vegna sveitarstjórnarkosninganna.

Lykiltölur / Vinstrihreyfing - grænt framboð

2023 2022
Rekstrartekjur 117,2 122,5
- framlög frá ríkissjóði 99,0 103,6
Rekstrargjöld 94,3 153,9
Afkoma 25,3 -31,2
Eignir 54,1 38,6
Handbært fé 45,6 30,7
Eigið fé 50,4 29,4
- í milljónum króna