Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki eru minnstu bankar Norðurlandanna sem skilgreindir eru sem kerfislega mikilvægir. Sydbank í Danmörku fylgir þar á eftir en hann er um 20% stærri en sameinaður banki Arion og Íslandsbanki yrði.

Eiginfjárauki sem íslensku bankarnir þrír bera vegna kerfislegs mikilvægis nemur 3 prósentum. Til samanburðar er hann 1% hjá Sydbank.

Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi greiningarfyrirtækisins Akkurs, bendir á að einn annar banki á Norðurlöndunum sé með 3% eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis en það sé Danske sem er tuttugufalt stærri en sameinaður banki Arion og Íslandsbanka. Þá sé SEB í Svíþjóð, sem er fimmtánfalt stærri, aðeins með 1% eiginfjárauka.

„Það er erfitt fyrir íslensku bankana að keppa við þetta. Þetta gerir það að verkum að íslensku bankarnir missa stór öflug fyrirtæki, t.d. sjávarútvegsfyrirtæki, til erlendra banka. Litlu og meðalstóru fyrirtækin og heimilin í landinu sitja uppi með þessa eiginfjárauka á meðan að stærstu aðilarnir fara bara út og fjármagna sig þar.“

Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, varði háar eiginfjárkröfur íslenskra banka í alþjóðlegum samanburði í grein sem birtist á vef Seðlabankans í mars. Hann rakti háa eiginfjárauka hér á landi m.a. til mikillar samþjöppunar fjármálakerfisins.

Mynd tekin úr grein Tómasar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.