Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára hefur verið ráðinn bæjarstjóri Akraneskaupstaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Haraldur tekur við starfinu af Sævari Frey Þráinssyni, sem ráðinn var í starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í febrúarbyrjun. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvenær Haraldur tekur við nýja starfinu, né hvort hann muni segja af sér þingmennsku þegar þar að kemur. Fari svo tekur Teitur Björn Einarsson við þingsætinu sem fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu.

Meðal starfa Haralds á Alþingi eru seta í atvinnuvega-, fjárlaga-, og stjórnskipunar og eftirlitsnefnd. Þá hefur hann verið stjórnarformaður Orkusjóðs og stjórnarformaður Fjarskiptasjóðs, auk þess að veita fjölda nefnda og stýrihópa á vegum stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands formennsku.

Hætti við að hætta eftir tap fyrir Þórdísi

Haraldur hefur verið þingmaður Norðvesturkjördæmis síðan 2013 og er í dag 5. þingmaður þess, en kjördæmið er það minnsta á landinu með 8 þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þar tvo, en Haraldur laut í lægra haldi fyrir varaformanni flokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem þá var iðnaðar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, í baráttunni um oddvitasætið fyrir síðustu þingkosningar 2021.

Haraldur hafði látið hafa eftir sér að færi svo myndi hann ekki þiggja 2. sætið á lista flokksins í kjördæminu, en snérist hugur þegar á hólminn var komið.

Í tilkynningunni er haft eftir forseta bæjarstjórnar Akraness að alger einhugur hafi ríkt innan bæjarstjórnar um ráðningu Haralds.

„Haraldur hefur þekkingu og reynslu sem við bæjarfulltrúar erum fullviss um að muni nýtast vel í starfi bæjarstjóra, Akraneskaupstað og samfélaginu hér á Akranesi til heilla. Alger einhugur ríkir í bæjarstjórn um ráðningu Haralds og við erum þess fullviss að hann muni veita bæjarfélaginu öfluga forystu á áframhaldandi uppgangstímum bæjarins,“ segir Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar Akraness.