Haraldur Þórðarson forstjóri Skaga, móðurfélags VÍS, hefur sett einbýlishús sitt við Selbraut á Seltjarnarnesi á sölu.
Óskað er tilboða í húsið en upplýsingar um húsið má finna hér.
Hús er 302 fm að stærð og keypti Haraldur húsið árið 2015 fyrir 95 milljónir króna. Húsið hefur verið endurnýjað samkvæmt lýsingu fasteignasölunnar.
Æskuheimili Nóna í Bankasýslunni
Jón Þorsteinsson alþingismaður Alþýðuflokksins var fyrsti eigandinn að húsinu. Hann var faðir Jóns Gunnars Jónssonar forstjóra Bankasýslunnar og var húsið því æskuheimili Nóna frá átta ára aldri.
Jón Þorsteinsson var þingmaður frá 1959-1971 eða nákvæmlega jafn lengi og Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks starfaði.
Jón sat því á þingi með Friðjóni Þórðarsyni, afa Haraldar, þegar Friðjón settist aftur á þing árið 1967 en hann sat til ársins 1983.
Friðjón settist fyrst á þing árið 1956 en náði ekki sæti í seinni kosningunum 1959. Hann var þriðji maður á lista Sjálfstæðisflokksins á Vesturlandi en flokkurinn náði tveimur þingsætum í kjördæminu.
Efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins á Vesturlandi í þessum kosningunum var Sigurður Ágústsson.
Sigurður var afi Ragnhildar Ágústsdóttur, eiginkonu Haraldar, sem jafnframt er eigandi hússins við Selbraut. Afar eigendanna sátu saman á þingi árin 1956-1959.