Hagkerfið er farið að kólna nokkuð hressilega enda ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að lækka stýrivexti um 25 punkta á síðasta fundi sínum fyrir þremur vikum síðan, niður í 9%. Væntingar eru uppi um að enn stærra skref verði stigið á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem fer fram eftir tæpan mánuð. Hægagangurinn í hagkerfinu er engin tilviljun enda hefur Seðlabankinn lagt mikla áherslu á að kæla hagkerfið, með vaxtahækkunum og ýmsum fleiri aðgerðum, eftir að verðbólgan fór á flug. Til marks um hve heitt hagkerfið var orðið nam hagvöxtur ársins 2022 8,9% og 4,1% árið 2023.

Hagkerfið hefur eins og fyrr segir kólnað hratt á þessu ári, og í lok þess síðasta, en til marks um það fór hagvöxturinn úr því að vera 9,7% á fyrsta ársfjórðungi 2023 niður í 1,5% á fjórða ársfjórðungi. Á seinni helmingi síðasta árs skruppu einnig þjóðarútgjöld, sem endurspegla innlenda eftirspurn, saman milli ára í fyrsta sinn frá faraldursárinu 2020. Þá varð tæplega 2% samdráttur á fyrri hluta yfirstandandi árs.

Haustlægð

Greiningardeildum stóru viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, ber saman um að betri tíð sé í vændum í íslensku hagkerfi, en þó engin gósentíð. Þetta endurspeglast í yfirskriftum hagspáa bankanna.

Haustlægð yfir hagkerfinu: Djúp og köld, eða grunn og mild er yfirskrift hagspár Arion banka sem kynnt var í lok síðasta mánaðar. Spáin gerir ráð fyrir að þjóðarskútan verði lengur í ládeyðu en áður var talið. Eftir samdrátt á fyrir hluta ársins sé útlit fyrir að hagvöxtur taki við sér á ný, en fari þó hægt af stað og nái aðeins 0,8% í ár og 1,5% árið 2025. Það er nokkuð minni vöxtur en gert var ráð fyrir í síðustu spá bankans, sem birtist í lok apríl, en það má fyrst og fremst rekja til einkaneyslunnar og ferðaþjónustunnar, sem hafa mætt meiri andbyr en áður var reiknað með. Greining bankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,4% árið 2026.

Hagkerfið í haustlitum

Greining Íslandsbanka slær haustinu einnig upp í yfirskriftinni: Hagkerfið í haustlitum en spá bankans birtist einnig í lok síðasta mánaðar. Íslandsbanki býst rétt eins og Arion banki við að hagvöxtur verði innan við 1% á þessu ári, eða 0,3%, en svo lítill hagvöxtur hefur ekki mælst frá fjármálakreppunni 2009-2010 ef undan er skilið heimsfaraldursárið 2020.

„Árið 2024 markar í raun hagsveifluskil þótt líklega verði ekki samdráttur á ársgrundvelli. Þetta er einnig talsvert minni vöxtur en við spáðum í maíspá okkar. Skýrist munurinn af verri horfum um útflutning, lífseigari innflutningi og áhrifum hárra vaxta á eftirspurn á seinni árshelmingi,“ segir í hagspá bankans.

Þá reiknar greining Íslandsbanka með að hagvöxtur verði 1,2% á næsta ári og 2,5% árið 2026. Hljóðar spá bankans upp á nokkru minni vöxt á spátímanum en í fyrri spá frá því í maí síðastliðnum. Það skrifist meðal annars á hægari vöxt ferðaþjónustu, heldur minni útflutningsvöxt sjávarafurða og langvinnari áhrif af háu raunvaxtastigi. Á móti megi benda á að vöxtur undanfarinna ára mælist nú meiri en fyrri tölur gáfu til kynna. Hægari vöxtur í spánni nú endurspegli því ekki endilega umtalsvert meiri slaka þegar frá líður.

Hagkerfið nær andanum

Yfirskrift greiningardeildar Landsbankans í nýjustu hagspá bankans Hagkerfið nær andanum fangar einnig þessar væntingar um aðeins betri tíð en spáin var birt í byrjun síðustu viku. Hagfræðingar bankans gátu því, ólíkt hagfræðingum Arion banka og Íslandsbanka, tekið 25 punkta stýrivaxtalækkunina með í jöfnuna í spá sinni.

Greiningardeild bankans er aðeins svartsýnni en kollegar sínir hjá hinum viðskiptabönkunum, þar sem hún gerir ráð fyrir að hagkerfið nánast standi í stað á milli ára og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%. „Bakslag í útflutningsgreinum setti svip sinn á fyrri hluta árs, loðnubrestur og hægari vöxtur ferðaþjónustu ollu samdrætti á sama tíma og háir vextir hafa kælt eftirspurnina sem engu að síður mælist nokkuð sterk,“ segir í hagspánni.

Aftur á móti reiknar Landsbankinn með nokkuð meiri hagvexti á næsta en hinir stóru viðskiptabankarnir. Þannig gerir bankinn ráð fyrir 2,3% hagvexti árið 2025. Loks spáir hann 2,1% hagvexti árið 2026. „Við gerum nú ráð fyrir öðrum og rólegri takti. Slaki hefur færst yfir hagkerfið sem nær andanum, verðbólga hjaðnar duglega, vextir lækka og hagkerfið fer aftur hægt og rólega af stað með um 2% hagvexti árlega næstu árin.“

Í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, sem birt var í lok júní, er gert ráð fyrir 0,9% hagvexti á þessu ári, 2,6% hagvexti árið 2025 og 2,7% hagvexti árið 2026. Í nýjasta riti Peningamála, sem var gefið út í lok ágúst, kemur svo fram að Seðlabankinn reiknar með 0,5% hagvexti á þessu ári, 2% hagvexti árið 2025 og 2,6% hagvexti árið 2026.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.