Héðinn er nýr styrktaraðili Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands. Daníel Freyr Hjartarson, yfirmaður nýsköpunar og þróunar Héðins, og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups, undirrituðu samstarfssamning sín á milli á dögunum.

„Héðinn er meira en 100 ára gamalt fyrirtæki og því þekkjum við mikilvægi þess að geta þróast með tímunum og aðlagað okkur að nýjustu tækni og vísindum. Þetta er frábært tækifæri til að halda áfram að styðja við íslenska nýsköpun og við hlökkum til að miðla reynslu okkar og þekkingu til frumkvöðla um land allt,“ segir Daníel Freyr.

Árlega eru sendar inn hundruð viðskiptahugmynda inn í keppnina og hefur hvatinn til þess komið úr öllum áttum í samfélaginu en sérstaklega bakhjörlum sem hafa stutt við sprotasamfélagið á einn eða annan hátt í gegnum tíðina.

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups, segir að keppnin hafi verið ein vinsælasta leiðin inn í sprotaumhverfið þar sem fyrstu skref frumkvöðla eru tekin. Keppnin hefur verið haldin undanfarin 16 ár.

„Við erum mjög ánægð með að gamalgróið fyrirtæki eins og Héðinn, sem byggir á langri reynslu og djúpri þekkingu á málmiðnaði og ýmiss konar tækni, sé tilbúið til að styðja við ferskustu sprotahugmyndir Íslands. Samstarfið mun án efa veita mörgum frumkvöðlum mikinn innblástur,” segir Ásta.