Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, óttast að tillaga Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, um að breyta uppgjörskröfu lífeyrissjóða þannig að hún taki ekki lengur mið af raunávöxtun myndi hafa í för með sér umtalsverða raunskerðingu lífeyrisréttinda hjá Birtu.

Benedikt: Risastórt skref í átt að afnámi verðtryggingu

Benedikt viðraði hugmynd á morgunfundi SFF á fimmtudaginn um að fella úr gildi verðtryggingu í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóða, þ.e. þannig að það muni ekki byggja á 3,5% raunávöxtunarkröfu. Í glæru Benedikts má sjá einfalt pennastrik yfir „raun“ í „raunávöxtunarviðmiði“.

Benedikt sagði að með þessari breytingu yrði stigið „risastórt skref í að afnema þessa verðtryggingu sem eiginlega enginn vill“. Slík breyting myndi ekki hafa áhrif á lífeyrisréttindi að hans sögn, þar sem tryggingafræðilegt uppgjör sem styðst við verðbólgureikningsskil búi ekki til réttindi.

Hann hélt því jafnframt fram að breytt ávöxtunarviðmið myndi breyta dýnamíkinni á skuldabréfamarkaði sem einkennist af háu hlutfalli verðtryggðra skuldabréfa.

Úr kynningu Benedikts Gíslasonar á morgunfundi SFF.

Snýst ekki um hversu langt er til Akureyrar heldur hvort bensínið dugi

Inntur eftir viðbrögðum segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, að framsetning Benedikts um að strika út fjóra bókstafi í reglugerð sem kveður á um 3,5% raunvaxtaviðmið við núvirðingu lífeyrisskuldbindinga sé bara hálf sagan.

Á sama tíma þyrfti þá að strika út heila setningu í lögum um lífeyrissjóði sem kveður á um að: „Mánaðarlegur lífeyrir skal verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs”.

„Þetta snýst ekki um það hvað er langt til Akureyrar, heldur hvort bensínið dugi,“ segir Ólafur og vísar þar í orð Benedikts á fundinum um að það sé alveg jafn langt til Akureyrar í mílum eða kílómetrum, sem samlíkingu við samband verðbólgureikningsskila og réttinda.

Hvað verðtrygginguna varðar segir Ólafur að hún kunni að vera vandamál. Verðtryggingin sé hins vegar í raun bara meðal við stóra vandamálinu sem er verðbólgan sjálf.

„Þessi einfalda tillaga Benedikts felur í sér um 40% raunskerðingu réttinda hjá Birtu enda geri ég ráð fyrir að tryggingastærðfræðingurinn myndi taka tillit til 2,5% verðbólgumarkmiðsins á óbreytta kröfu og núvirða skuldbindingar með 1% raunvöxtum vegna verðtryggðra skuldbindinga. Nema að hann noti langtíma meðaltal og þá er í sjálfum sér allt eins hægt að hætta því að reikna þetta.

Reikningsskil lífeyrissjóða eru ekki verðbólgin. Þetta er forsenda sem ætlað er að kanna hvort markmiðin eru raunhæf. Meðaltals verðbólga frá því að 2,5% markmiðið var tekið upp er rétt undir 5% og 3,5% nafnkrafa felur ekki í sér raunhæft markmið við núverandi aðstæður.“

Ólafur segir að Benedikt viti vel að verðtryggð skuldbinding með 20 ára meðaltíma sé mjög næm fyrir vaxtabreytingum. Hann bætir hins vegar við að það sé sjálfsagt mál að ræða breytingar á þessu landsfræga 3,5% vaxtaviðmiði.

„Við það þarf að hafa í huga að blönduðu eignasafni lífeyrissjóða er ætlað að skila þessari ávöxtun til lengri tíma litið og við þá skoðun er ekki bara nóg að horfa til vaxtaþróunar.“

„Hugsað hana lengi af því að hún er ekki gallalaus“

Í erindinu sagðist Benedikt hafa borið ofangreinda tillögu undir Marinó Örn Tryggvason, fyrrverandi bankastjóri Kviku banka‏, sem hafi verið að velta fyrir sér fyrirkomulagi 3,5% ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða undanfarin 20 ár.

„Ég hef þekkt Marinó Örn Tryggvason jafn lengi og hann hefur velt þessari hugmynd fyrir sér og hún er góðra gjaldaverð ef hún hefði verið sett fram með réttum hætti af Benedikt,“ segir Ólafur.

„Ég held að hann hafi hugsað hana lengi af því að hún er ekki gallalaus. Allar breytingar sem við gerum á lífeyrissjóðakerfinu fela í sér kosti og galla en við eigum að taka þá rökræðu þegar tækifæri gefst. Þegar við ræðum breytingar á vaxtaviðmiði verðum við líka að ræða iðgjöld og lífeyrisgreiðslur svo samhengis sé gætt.“

Verðlagning á erlendri útgáfu bankanna áhyggjuefni

Ólafur segist fagna allri umræðu um lífeyrissjóði og fjárfestingahegðun þeirra, og hrósaði jafnframt Benedikt fyrir flott erindi. Hann tók undir að verðlagning erlenda aðila á skuldabréfum bankana sé áhyggjuefni.

Benedikt varpaði upp meðfylgjandi mynd sem sýnir álag á 5 ára óverðtryggð skuldabréf samanborið við lánshæfismat. Íslensku bankarnir séu útkjálkar (e. outliers) í þessum samanburði og eru að greiða hærra vaxtaálag erlendis en þeir ættu að vera að gera miðað við lánshæfi að hans sögn.

„Það er auðvitað vont ef það byggir á innansveitarkroniku og stöðugum úrtölum á starfsemi bankana,“ segir Ólafur.

„Hagkerfi án skilvirkrar starfsemi banka er óhugsandi og það skiptir mjög miklu máli að byggja upp traust innlendra sem erlendra aðila á fjármálamarkaði. Við veltum því auðvitað fyrir okkur líka hvað veldur enda höfum við eins og Benedikt segir ekki verið stórir þátttakendur á markaði með bankabréf í erlendri mynt.

Ég geri nú frekar ráð fyrir því að þetta snúist um að dýpka markaðinn frekar en að sannfæra erlenda aðila um að gera lægri kröfu til þeirra. Til að byrja með erum við væntanlega verðþegar á þessum erlenda markaði en sennilega er flugferðin út notalegri ef það er búið að selja hluta af útgáfunni hér heima.“

Gjaldeyrisáhætta gæti breyst í mótaðilaáhættu

Til hliðsjónar af ofangreindu álagi sagði Benedikt að skoða ætti af hverju lífeyrissjóðir hafi ekki meiri áhuga á skuldabréfaútgáfu íslensku bankanna í erlendum gjaldmiðlum. Hann nefndi í þeim efnum að þetta kunni að snúast um fjárfestingarheimildir sjóðanna.

Benedikt sagðist vilja sjá lífeyrissjóðum fá auknar heimildir til að fjárfesta erlendis. Hægt væri að nýta bankakerfið og aðgengið sem bankarnir hafa að erlendum lánamörkuðum til að fjármagna íbúðalán með löngum hætti óverðtryggt og skiptast á gjaldeyri úr þessum útgáfum í gegnum gjaldeyrismarkaðinn og gjaldeyrisskiptasamninga. Slík leið væri góð fyrir bæði banka og lífeyrissjóði til þess að dreifa áhættu, bæta rekstrarumhverfið og bæta kjör almennings að hans mati.

Ólafur segir að ekki þurfi lagabreytingu til að selja lífeyrissjóðum skuldabréf á íslenskan banka í evrum með áföstum gjaldmiðlaskiptasamning sem hlutleysir gjaldeyrisáhættuna eða takmarkar hana.

„Ég sé reyndar ekki hvernig það eykur áhættudreifingu á eignum út fyrir landsteinana ef tryggingin er fasteignalánasafn á Íslandi með íslenskan banka sem mótaðila. En ef það verður til þess að verðmyndun verður skilvirkari og markaðurinn dýpri þá veit Benedikt hvar skrifstofan okkar er.

Það er meira en ár síðan ég benti Barkleys á þetta sem mér skilst að sé helsti söluaðili íslensku bankana erlendis og það er gott að Benedikt er byrjaður að hugsa um þetta. Við tökum fagnandi á móti öllum hugmyndum en ekki talaði hann við okkur þegar hann fullyrðir að lífeyrissjóðir telji þetta ekki vera mögulegt.“

Ólafur segir hins vegar vandann við þessa hugmynd vera að lífeyrissjóðirnir breyti í raun gjaldeyrisáhættu í mótaðilaáhættu.

„Þannig tek ég undir það með honum að mögulega þarf Seðlabanki Íslands að vera milliliður í þessu. En orð eru til alls fyrst og það stendur ekki á okkur að ræða hugmyndina.

Dæmi sem hann tók af sænskum lífeyrissjóði er rökrétt í þeim skilningi að þeir nota krónur eins og við og vilja væntanlega takmarka gjaldeyrisáhættuna við 50% af skuldbindingum. Það er í raun í samræmi við lög um lífeyrissjóði sem kveða á um að gjaldeyrisáhætta skuli takmarkast við rúm 50% í dag og fallist hefur verið á að hækka það í hægfara skrefum næstu árin.“