Samkvæmt tölum Seðlabankans var heildarvelta innlendra greiðslukorta 116,7 milljarðar króna í síðastliðnum ágústmánuði.

Velta debetkorta var þá 51,4 milljarðar króna en velta kreditkorta var 65,3 milljarðar króna.

Seðlabankinn birti einnig í dag tölur um gjaldeyrisforða bankans, sem nam 744,3 milljörðum króna í lok ágúst og hafði lækkað um 5,8 milljarða króna milli mánaða.

Bankinn áætlar að nettó útgreiðslur gjaldeyriseigna Seðlabankans og ríkissjóðs fyrir næstu 12 mánuði verði um 0,8 milljarðar miðað við lok ágúst, samanborið við 0,5 milljarða miðað við lok júlí.

Velta innlendra greiðslukorta í verslunum innanlands í ágúst nam 91,6 milljarða, en það er aukning um 5,4 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Velta debetkorta var þá 41,1 milljarður en velta kreditkorta 50,6 milljarðar.

Erlendis nam velta innlendra greiðslukorta í verslunum 22,3 milljörðum króna í síðasta mánuði sem er aukning um 0,3 milljarða miðað við ágúst árið 2022.

Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í ágúst 2023 var 42,8 milljarðar sem jafngildir 4,2 milljörðum meiri veltu en á sama tíma í fyrra.