LifeTrack heilsuappið fór í loftið fyrir örfáum dögum en um er að ræða íslenska nýsköpunarlausn sem hefur það markmið að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu.

Fólkið á bak við LifeTrack eru heilsufrumkvöðlarnir Ingi Torfi Sverrisson og Linda Rakel Jónsdóttir sem hafa síðustu ár helgað sig vinnu við að leiðbeina mörg þúsund manns um mataræði, hreyfingu og hugarfar með fyrirtæki sínu ITS Macros.

„Eftir að hafa hlustað og greint hvað fólk á Íslandi vill og vill ekki, bjuggum við til verkfæri sem er einfalt í notkun og umfram allt á íslensku og sérsniðið að íslenskum markaði,“ segir Linda Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastýra og annar stofnandi LifeTrack.

Smáforritið inniheldur næringardagbók og heilsuefnisveitu sem inniheldur meðal annars hugleiðslur, kvöldsögur, jóga- og heimaæfingar, hlaupaprógrömm, svefnfræðslu og hvatningu.

Eigendur LifeTrack héldu nýlega lokað hóf til að fagna áfanganum með nánustu aðstandendum og þeim sem lagt hafa sitt af mörkum við þróun appsins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, taldi niður og setti formlega af stað heilsubyltingu LifeTrack.

„Appið er nýsköpunarlausn fyrir íslenskan markað sem mun hafa afar jákvæð áhrif á heilsu fólks og hjálpa til við að draga úr stórum lýðheilsuvanda. Ég er stolt af þessum heilsufrumkvöðlum sem brenna fyrir bættri heilsu okkar hinna,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.