Miðað við að Nettó er með 30-35% markaðshlutdeild, þá er sala á heilsumarkaði á Íslandi í kringum fjóra milljarða króna," segir Hallur Geir Heiðarsson, rekstrarstjóri Nettó.

Hafa ber í huga að skilgreiningin á heilsuvöru hefur breyst mikið í gegnum tíðina og eru ýmsar lífrænar vörur ekki lengur innifaldar í skilgreiningunni. „Áður fyrr voru lífrænar vörur aðal heilsuvörurnar. Vörur eins og lífrænt morgunkorn og lífrænir tröllahafrar. Nú eru einhverjar lífrænar vörur einfaldlega orðnar að almennri vöru og settar í almennar vöruhillur en ekki í sérdeildir eins og hefur verið."

Hallur segir veltu á heilsu- og lífsstílsvörum hafa margfaldast hjá Nettó, sérstaklega síðustu ár. „Heilsuvörur eru orðnar 8% af veltunni hjá okkur, en til samanburðar var hlutfallið einungis 2% fyrir tíu árum síðan.  Verðmæti markaðarins hefur jafnframt tífaldast á sama tímabili. Vöruúrvalið eykst með hverju ári og við erum með hátt í 3.000 vörunúmer núna sem flokkast undir heilsuvörur og lífstílsvörur. Heilsuvörubirgjarnir hjá okkur hafa síðan tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum og eru orðnir 60 talsins," segir Hallur.

Úr sojamjólk í próteinpönnukökur

Hallur segir mikla breytingu hafa orðið á neyslumynstri og á vinsældum heilsuvara. „Fyrir tíu árum voru söluhæstu heilsuvörurnar hafraklattar og sojamjólk. Seinna meir voru söluhæstu vörurnar ýmiss konar djús, orkustykki og hrískökur." Hann segir að í dag sé orðin mikil eftirspurn eftir skyndilausnum í hollari kantinum sem fólk getur gripið í á ferðinni. „Vinsælustu vörurnar okkar um þessar mundir eru próteinstykki og próteinpönnukökur. Svo eru próteinkleinuhringir það nýjasta á markaðnum. Vítamín og bætiefni eru auk þess alltaf að verða vinsælli og nema í dag um 40% af markaðnum." Hallur segist auk þess búast við miklum breytingum í ferskvöru á næstu misserum og áætlar að framboð og vöruúrval af lífrænum ferskvörum muni aukast mikið.

Minna um tískubylgjur

„Veltan hefur tvöfaldast milli ára stöðugt frá opnun Vegan búðarinnar. Salan hefur því verið þráðbeint upp á við," segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, eigandi og forstjóri Veganmatar ehf. „Við erum að sjá mikla fjölgun í veganhópnum á Íslandi. En sá hópur sem stækkar ennþá hraðar og meira er það sem kallast á ensku „meat avoiders", eða fólk sem leggur sig fram við að borða sem minnst af dýraafurðum. Þessi hópur kaupir jafnvel ekki kjöt og aðrar dýraafurðir, en borðar það þegar það er í boði."

Sæunn var vörustjóri fyrir heilsuvörur hjá Nettó á árunum 2013-2016 og segir margt hafa breyst í neyslumynstri fólks síðan þá. „Á þessum tíma var fólk mikið að eltast við tískubylgjur og heilsugeirinn einkenndist svolítið af þeirri hjarðhegðun. Í dag er fólk miklu frekar að leita sér að einhverju sem er svipað því sem þau þekktu áður en er betra fyrir umhverfið, heilsuna og velferð dýra." Hún bætir við að fólk sé orðið meira meðvitað um allar hliðar aðfangakeðjunnar, hver framleiddi matinn, hvernig hann kom til landsins og hvernig umbúðirnar eru. „Þetta eru orðnir mjög stórir þættir í okkar vöruúrvali, hvort aðfangakeðjan stenst skoðun og hvort það sé réttlæti og sanngirni alla leið."

Nánar er fjallað um heilsumarkaðinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .