Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað kaup ríkisins á öllu hlutafé Auðkennis, sem veitir rafræna auðkenningar- og traustþjónustu á Íslandi. Stærstu eigendur Auðkennis voru viðskiptabankarnir þrír auk Símans og Kviku banka.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynnti í júlí síðastliðnum um að kaupverðið myndi nema bókfærðu hlutafé félagsins, eða um 948 milljónum króna. Það væri um 80% af því fjármagni sem eigendur félagsins hefðu lagt því til í formi hlutafjár til að þróa lausnina.

Eftirlitið samþykkti kaupin á grundvelli skilyrða í sátt við samrunaaðila. Það felst m.a. í skilyrðum vegna áforma um að stofnað verði ráðgjafaráð, skipað fyrrum eigendum og stórnotendum þjónustu Auðkennis, sem SKE telur að stuðli að mismunun meðal viðskiptavina og skapi hættu á skaðlegum upplýsingaskiptum.

Jafnframt þurfa stjórnvöld að endurmeta reglulega stöðu sína og hlutverk á markaði Auðkennis til að tryggja að aðkoma ríkisins takmarki ekki frekari þróun og frumkvæði annarra sem vilja hasla sér völl á þessu sviði.

„Í þessu sambandi er horft til þess að ríkissjóður öðlast með samrunanum yfirráð yfir Auðkenni sem hefur undanfarin ár haft yfirburðarstöðu í rafrænni auðkenningar- og traustþjónustu á Íslandi. Auk þess liggur fyrir að íslenska ríkið er jafnframt eigandi og rekstraraðili Íslandsrótar sem gefur út svokölluð rótarskilríki sem eru forsenda auðkenningarþjónustu á Internetinu. Þá hefur ríkið og stofnanir þess verið á meðal stærstu viðskiptavina Auðkennis,“ segir í tilkynningu SKE.