Heimstaden hefur skipt um nafn og heitir nú Ívera. Aðdragandi breytinganna var þegar sjóður í stýringu hjá Stefni hf., að fullu fjármagnaður af íslenskum lífeyrissjóðum, gekk frá kaupum á Heimstaden ehf. í apríl síðastliðnum.

Í tilkynningu segir að Ívera stefni að því að vera leiðandi uppbyggingarafl á íbúðamarkaði á komandi árum með aðkomu að fjárfestingu og fjármögnun við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Á næstu árum stefnir Ívera að því að fjölga íbúðum í sinni eigu úr um 1.600 í 3.000 og stórauka þar með framboð leiguhúsnæðis og styðja við markmið stjórnvalda um aukið aðgengi að húsnæði.

„Ívera nálgast reksturinn með þjónustumiðað hugarfar og langtímahugsun að leiðarljósi. Við höfum það hugfast að undirliggjandi eignir eru heimili. Því leggjum við áherslu á að Ívera sé rekið á kjölföstum langtímagrundvelli og að okkar þjónusta byggi á vinalegum og faglegum grunni,“ segir Egill Lúðvíksson, forstjóri Íveru.